- Advertisement -

Samfylkingin og bráðavandinn

Hvað á fólkið að gera sem þarf að velja á milli þess að greiða reikninga eða kaupa nauðsynjar á meðan við bíðum eftir grænni framtíð og sjálfbæru og réttlátara samfélagi?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifaði:

Ég er nokkuð hugsi eftir landsfund Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokk Íslands eins og hún kallar sig.

Ég upplifi „jafnaðarmannastefnuna“ og lausnir eins og að undirbúa sumarslátt og haustuppskeru í upphafi vetrar. Á meðan ekkert er til að bíta og brenna yfir veturinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ragnar Þór Ingólfsson:
Er ég eini „jafnaðarmaðurinn“ sem varð fyrir miklum vonbrigðum með stefnu jafnaðarmanna, skilningsleysið fyrir alvarleika stöðunnar sem uppi er „NÚNA“?

Við þurfum sannarlega aðgerðir næsta sumar og næsta haust. Við þurfum græn störf og framtíðarsýn, forgangsröðun og innspýtingar, nýsköpun og evru, en af hverju er ekki forgangsmálið nú og aðgerðarplanið að grípa þá sem verst hafa farið í skertum tekjum vegna covid?

Og fólkið okkar, öryrkjar og eldri borgara, sem ekki áttu fyrir nauðsynjum fyrir Covid og 20% gengisfellingu krónunnar eru í vonlausri stöðu, þrátt fyrir hjálparstofnanir?

Er innlegg jafnaðarmanna í Covid hrunið virkilega það sama og í eftirmálum hrunsins? Þar sem hugmyndafræðin, þeir bjargi sér sem það geta og fjármálakerfið sér um rest, mun ráða för?

Hvað á fólkið að gera sem þarf að velja á milli þess að greiða reikninga eða kaupa nauðsynjar á meðan við bíðum eftir grænni framtíð og sjálfbæru og réttlátara samfélagi?

Þá er eins gott að fjölga opinberum störfum, eins og hjá umboðsmanni skuldara ásamt fleiri undirmönnuðum opinberum stofnunum sem þurfa að taka á móti þúsundum einstaklinga sem ekki geta framfleytt sér vegna of lágra bóta eða tekna því tillögur jafnaðarmanna um hækkun atvinnuleysisbóta munu ekki komast nálægt því að leysa þann fyrirsjáanlega vanda sem við stöndum frami fyrir.

Aðgerðir stjórnvalda hafa nær eingöngu miðast við björgunarpakka, upp á annað hundrað milljarða, til atvinnulífsins.

Samt telja jafnaðarmenn að fyrirtæki þurfi aukinn fyrirsjáanleika og mun markvissari stuðningsaðgerðir en stjórnvöld hafa veitt hingað til vegna efnahagsáhrifa veirunnar.

Svo segir:

„Á meðan afdráttarlausar aðgerðir í loftslagsmálum þola enga bið, á tímum heimsfaraldurs og fjöldaatvinnuleysis, getur almenningur á Íslandi reitt sig á leiðarljós jafnaðarmanna.“ „Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands er sá stjórnmálaflokkur sem er best til þess fallinn að leggja fram raunhæfar lausnir á þeim vandamálum sem hér er lýst og hrinda þeim í framkvæmd. Það gerum við á forsendum jafnaðarstefnu fyrir allt Ísland og lykilorðin eru vinna, velferð og græn framtíð.“

Er ég eini „jafnaðarmaðurinn“ sem varð fyrir miklum vonbrigðum með stefnu jafnaðarmanna, skilningsleysið fyrir alvarleika stöðunnar sem uppi er „NÚNA“?

Eða var ekki við meiru að búast?

Svona í lokin, áður en jafnaðarmenn fara á límingunum yfir skrifum mínum, væri gott að fá innlegg þeirra og hugmyndir til hvaða aðgerða þarf að grípa til að sú atburðarás og skelfilegu mistök voru gerð, eftir bankahrunið 2008, þegar tugþúsundir misstu heimili sín, verði ekki að endurtekin?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: