- Advertisement -

Samkomulag stofnanaflokkanna um Evrópu var hafnað

Stofnanaflokkarnir og frjálslyndir hafa ekki svarað gagnrýninni á lýðræðishallann.


Gunnar Smári skrifar:

Evrópukosningarnar staðfesta upplausn þess stjórnmálakerfis sem byggðist upp á eftirstríðsárunum og sem skóp Evrópusambandið; samkomulag í helstu málum milli hefðbundinna hægriflokka og sósíaldemókrata; fyrst um uppbyggingu atvinnu- og velferðarkerfa þjóðríkjanna innan alþjóðasamvinnu tollabandalaga, NATÓ, SÞ og slíks en frá því fyrir, um og einkum eftir aldamót um alþjóðavæðingu fjármálavædds kapítalisma, nýfrjálshyggju og aukin völd alþjóðastofnana og -samninga (og þar af leiðandi minni völd og vægi hins pólitíska vettvangs, þar sem almenningur hefur aðkomu að). Stjórnmálakerfin sem byggðust utan um samkomulag þessara valdaflokka hafa hrunið á Ítalíu og Frakklandi, eru á brauðfótum á Spáni, eru að ganga í gegnum alvarlega krísu í Bretlandi og víðar. Það eru orðin fá lönd þar sem þessir flokkar geta náð meirihluta samanlagt í dag; varla önnur en Þýskaland, sem er varið fyrir ókostum evrunnar og Evrópusambandsins, eins og það hefur þróast. Í Evrópukosningunum 1999 og 2004, síðustu kosningunum fyrir hrunið 2008, sem var hrun þess samfélags sem byggði á samkomulagi hefðbundnu hægriflokkanna og sósíaldemókrata, fengu þessir flokkar samanlagt 2/3 þingmanna á Evrópuþingið, 66%. Eftir Hrun hefur staða þeirra versnað hratt. Samanlagt fengu þeir 61% þingmanna 2009 (þegar orsök og afleiðingar hrunsins höfðu ekki komið fram, árið 2014 fengu þeir nauman meirihluta þingmanna, 53%, en í ár fá þessar flokkablokkir ekki nema 43% þingmanna. Það er að koma í ljós að það sem virtist vera hrun sósíaldemókratískra flokka eftir Hrun, skilgreint sem hefnd kjósenda vegna svika þessara flokka við alþýðumanna, nudd þeirra upp við kapítalista og elítuvæðing fyrrum baráttutækja alþýðunnar; var einnig merki um hrun stjórnmálakerfis eftirstríðsáranna og höfnun á því samkomulagi sem valdaflokkar höfðu gert sín á milli. Sama samkomulagi og ríkisstjórnin okkar hér á Íslandi er mynduð utan um.

Kannski er það vegna þess að stofnanaflokkarnir til vinstri töpuðu fyrst fylgi að það er hægrið sem er komið lengra í endurnýjun en vinstrið. Evrópuskeptískir hægriflokkar ná til sín megninu af fólkinu sem misst hefur trú á valdaflokkum eftirstríðsáranna. Frjálslyndir flokkar vinna á, en fyrst og fremst í Frakklandi og Bretlandi, þar sem þeir lenda í því hlutverki að vera númer tvö á eftir últrahægriflokkum, þeir vinna á vegna taps stofnanaflokkanna en ekki nóg til að halda aftur af vexti últra-hægrisins. Frjálslyndir voru með 8-12% þingsætanna um aldamótin, eru með tæp 16% í dag; hefur tekist að ná til sín um fjórðungi af tapi stofnanaflokkanna.

Græningjar vinna aðeins á í þessum kosningum og fá 9% þingsætanna á móti um 6-8% um aldamótin. Þeir ná til sín innan við 10% af tapi stofnanaflokkanna.

Bæði frjálslyndir og græningjar eru fylgjandi Evrópusambandinu, svo því fer fjarri að Evrópuandstæðingar hafi náð meirihluta þar. Gömlu stofnanaflokkarnir plús græningjar og frjálslyndir eru með 68% þingsæta í dag, voru með 82-84% um aldamótin.

Róttæka vinstrið, vinstra megin við sósíaldemókrata, hefur ekki styrkt stöðuna á Evrópuþinginu; fær nú um 5% þingsæta en var með 6-7% þingsæta um aldamótin. Það er ekki að sjá merki þess að það sé að ná sér á strik; það er aðeins fokkur Mélenchon í Frakklandi sem getur bent á lítinn sigur, Enhedslisten í Danmörku örlítinn.

Sveiflan er hins vegar til hægri, í átt til Evrópuskeptískra hægri flokka sem skiptast síðan í blokkir eftir því hversu mikið vægi útlendingaandúð spilar í stefnu þeirra. Þessi flokkar hafa náð forystu í gagnrýni á alþjóðavæðingu fjármálavædds kapítalisma og flutning á valdi frá almenningi og hins pólitíska valds yfir til hins svokallaða markaðar annars vegar (auðvaldsins) og alþjóðaskuldbindinga og embættismannakerfisins hins vegar (elítanna) og mörgum þeirra tekist að setja útlendingaandúðna á dagskrá í krafti þessara gagnrýni. Stofnanaflokkarnir og frjálslyndir hafa ekki svarað gagnrýninni á lýðræðishallann eða afleiðingar af efnahagsstefnu hins alþjóða- og fjármálavædda kapítalisma á nýfrjálshyggjuárunum heldur reynt að verjast hægrinu fyrst og síðast út frá útlendingaandúðinni og afturhaldi í persónumálum, og hafa því ekki mætt uppgangi últrahægrisins á þeim sviðum sem keyrir áfram vélina að baki.

Róttæka vinstrið hefur verið að móta sína útgáfu af Evrópuskeptisma (ef ESB breyttist ekki og fer að þjóna hagsmunum alþýðunnar höfum við ekkert við það að gerast) en það er veik rödd. Græningjar vilja auka völd Evrópusambandsins til að búa til fjölþjóðlegt vald sem getur þröngvar þjóðríkjunum til að mæta hlýnun jarðar (og í sumum tilfellum auknum ójöfnuði byggðum á skattaundanskotum hinna ríku). Þótt róttæka vinstrið og græningjar séu eins og náttúrlegir samherjar, þá er vandséð að þeim takist að búa til sameiginlega og heildstæða Evrópustefnu á næstunni. Litróf græningja nær líka frá róttækum sósíalistum yfir í fólk sem telur að hægt sé að bjarga jörðinni án þess að hrekja auðvaldið frá völdum.

Niðurstaða Evrópukosninganna er því þessi: Á meðan vinstrið gerir ekki upp við sáttmálann sem sósíaldemókratar gerðu við hægrið á nýfrjálshyggjuárunum og snýr frá samkeppnis-, markaðs-, einka- og alþjóðavæðingar Evrópusambandsins mun nýja hægrið sigra Evrópu, stjórna umræðunni og ráða mestu um fyrirsjáanlega uppstokkun Evrópusambandsins.

Það er svart belti að myndast í Evrópu. Í Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu fengu ný-hægri flokkar flest atkvæði til Evrópuþingsins og ef við tökum með Evrópuskeptíska flokka í bandalagi með breska Íhaldinu þá bætist Pólland og Lettland við. Til samanburðar fengu sósíaldemókratar flest atkvæði á Spáni. í Hollandi og Portúgal, frjálslyndir flokkar í Danmörku og Tékklandi og græningjar hvergi, róttækir sósíalistar hvergi. Það þarf svartsýnan mann til að trú því að þetta svarta belti muni breiðast út og leggja undir sig Evrópu. En það er ljóst að svarið við ásókn últra-hægrisins er ekki varðstaða um það kerfi sem varð kveikjan að uppgangi últra hægrisins. Hægrið nær ekki að verða fullkominn sigurvegari kosninganna en það er ljóst að gömlu stofnanaflokkarnir eru hinir fullkomnu taparar; þeirra tími er liðinn og andstaðan við arfleið þeirra knýr áfram endurskipulagningu evrópskra stjórnmála.





Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: