- Advertisement -

„Sanngirnismál að fólk fái að vinna“

„Þetta á að vera sjálfsagður hlutur og við eigum að bera virðingu fyrir eldri borgurum.“

Tómas A. Tómasson.

Alþingi „Ég er hlutdrægur í þessu máli. Ég er eldri borgari. Ég er meira að segja eftir nokkrar vikur orðinn 75 ára gamall og ég er að vinna. Ég man að þegar ég var yngri þá hugsaði ég með mér: Þegar ég verð eldri borgari verð ég að hafa hlutverk þegar ég vakna á morgnana,“ sagði Tómas A. Tómasson á Alþingi, þegar rætt var um almannatryggingar á Alþingi.

„Ég dáðist að því að það var frægur prestur hér, séra Árelíus Níelsson, hann bar út Moggann þegar hann var hættur í sínum preststörfum. Verandi þetta gamall sem ég er þá umgengst ég fólk á mínum aldri og það er stór hópur sem elskar það að vinna enn þann dag í dag. Það þarf að gefa þessu fólki tækifæri og leyfi til þess að vinna óskert í alla staði eins og það vill. Ég þekki fólk sem hefur verið rekið heim, vinnandi hjá hinu opinbera, af því að það var orðið sjötugt, fólk sem var í fínu formi og elskaði að vinna og nagaði sig í handarbökin þegar það gat ekki lengur farið í vinnuna og mætti jafnvel í vinnuna þó að það væri ekki að vinna, bara til að vera innan um vinnufélagana.“

Tommi var ekki hættur:

Fólk sem er komið á þennan aldur…

„Ég man að þegar ég var liðlega fertugur frétti ég af kollega mínum sem keypti hótel í Hveragerði á sínum tíma og ég var eitthvað að dást að því, rúmlega fertugur, hvað hann væri duglegur, orðinn 56 ára gamall. Mér fannst hann vera orðinn gamall karl. Í dag er ég 75 ára og ég fer þrisvar í viku, stundum fjórum sinnum, inn í Laugar að æfa og ég geri ýmsa hluti sem jafnaldrar mínir gera líka, sumir og sumir ekki. Ég yrði mjög súr ef mér yrði bannað að vinna eins og ég er að vinna núna. Ég reyndar er kosinn á Alþingi þannig að ég fæ undanþágu að vera hjá hinu opinbera.

Ég veiti þessu máli mitt brautargengi eins langt og ég næ með það því að það er svo mikið sanngirnismál að fólk fái að vinna, bæði aldurs síns vegna og líka það að þeir sem hafa minna milli handanna geti farið út á vinnumarkaðinn og unnið sér inn einhverjar krónur. Fólk sem er komið á þennan aldur hefur kannski ekki fulla vinnugetu eða vinnukraft og vill vinna bara temmilega mikið en það er súrt ef 40% af þeirra tekjum bæði fer í skatt og svo er líka skertur ellilífeyrinn þeirra. Þetta er mjög ósanngjarnt og við þurfum að leiðrétta þetta. Það er svo auðvelt að taka snúning á eldra fólki. Það er synd að þetta skuli vera áreiti hjá þeim sem ráða. Þetta á að vera sjálfsagður hlutur og við eigum að bera virðingu fyrir eldri borgurum.

Ég er mjög hamingjusamur að fá að geta tjáð mig um þetta mál og ég óska þess heitt og innilega að málið fari í nefnd og verði síðan lagt fyrir þingið og verði samþykkt. Ég segi bara eins og alltaf: Fólkið fyrst, svo allt hitt. Áfram veginn,“ sagði Tómas A. Tómasson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: