- Advertisement -

Sannleikurinn um Evrópusambandið I – Öryggi, velferð og lífsgæði, sem margir átta sig ekki á

ESB leggur líka mikla áherzlu á sameiginlega heilbrigðisvelferð okkar, ekki sízt á sviði hollustu, heilnæms lífs, forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða.

Ole Anton Bieltvedt.

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Margir hægri flokkar í Evrópu, þeir sem lengst til hægri standa, hafa lengst af verið andstæðingar ESB. Hafa þeir leitað margra leiða til að gera bandalagið tortryggilegt, telja fólki trú um, að það væri fjandsamlegt einstaka þjóðum, einkum þeim smærri, og reynt að varpa rýrð á þýðingu þess og starfsemi á flestan hátt.

Í millitíðinni hafa þessir flokkar, Svíþjóðar-demókratar, AfD Þýzkalandi, „Frelsisflokkur“ Wilders Hollandi, Front National/Le Pen Frakklandi, og, nú síðast, Bræður Ítalíu/Giorgia Meloni, en hennar flokkur var í upphafi fasistaflokkur Mussolini, vent kvæði sínu í kross og lýst yfir stuðningi við ESB.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Er þar spilað með hálfsannleika.

Annað enda vart hægt, jafnvel ekki fyrir öfgamenn, en að átta sig ekki bara á gífurlegri þýðingu ESB fyrir frelsi, velferð og öryggi Evrópu, heldur líka á því, hvernig ESB tryggir okkur betra og öruggara líf; meiri velferð og lífsgæði.

Undarlegt nokk, eru þó enn öfl í gangi, hér uppi á Íslandi, auðvitað yzt á hægri kantinum, sem rembast við að reyna að setja ESB í vont ljós. Er þar spilað með hálfsannleika, tímapunktar og málsatriði slitin úr samhengi og tengd svo með villandi hætti, vitnað í gamlar umsagnir og mál, sem ekkert gildi hafa lengur, aukaatrið gerð að aðalatriðum o.s.frv.

Þetta allt í þeirri vitneskju, að margir hér vita lítið um innri mál ESB, þannig, að vandalítið sé, að villa um fyrir mönnum. Fyrir mér ljótur leikur og lágkúrulegur, sem virðist ganga í allmarga.

Vert er því, að rifja þetta upp:

Á hverjum einasta degi, og oft á dag, erum við með hluti – alls kyns varning; matvöru, fatnað, heimilisbúnað, áhöld og verkfæri, líka öll rafmagnstæki, vélar, farartæki og bílinn okkar – í höndunum, þar sem einmitt ESB hefur tryggt okkur mestu möguleg þægindi, umhverfisvænar lausnir og umfram allt öryggi og gæði í notkun.

Allt, sem við erum með í höndunum og notum, sem er CE-merkt, hefur þurft að uppfylla stífar kröfur ESB og prófanir um vænar lausnir fyrir neytendur og aðra notendur, lágmarks orkunotkun og minnsta mögulega umhverfisspillingu og, eins og áður segir, hámarks öryggi og endingu.

Brertland datt út við Brexit.

Þessi starfsþáttur ESB er einn af lykilþáttum sambandsins, hvað varðar okkar daglega líf; trygging hagsmuna og velfarnaðar þegna þess.

En ESB kemur víða annars staðar við sögu, og hefur jákvæð áhrif á líf okkar, umhverfi, athafnafrelsi og öryggi.

Baráttan fyrir „virðingu mannsins“ og sameiginleg mannréttindi okkar – frelsi til orðs og æðis – standa efst á blaði hjá ESB. Eru 1. einkunnarorð sambandsins. Næst má telja jafnréttisbaráttuna; baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna, hörundsdökkra, hinseginfólks, fatlaðra og allra annarra, sem minna mega sín, gagnvart þeim, sem meira mega sín, en líka baráttuna fyrir sérstökum réttindum kvenna.

ESB leggur líka mikla áherzlu á sameiginlega heilbrigðisvelferð okkar, ekki sízt á sviði hollustu, heilnæms lífs, forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða.

Forystuhlutverk ESB í því að láta þróa og útvega öllum aðildarríkjunum 27, svo og Íslandi og Noregi, bóluefni gegn COVID er auðvitað skýrt dæmi um það.

Hluti af sömu viðleitni ESB er samstilling sjúkratrygginga í Evrópu, sem leiddi til útgáfu hins evrópska sjúkratryggingarkorts, sem veitir Íslendingum aðgang að sjúkraþjónustu og sjúkratryggingu í 27 öðrum evrópskum löndum. Brertland datt út við Brexit.

ESB er leiðandi afl

ESB vinnur líka hratt og skipulega að því að tryggja okkar sameiginlega neytendarétt og neytendavernd (það hefur knúið fram sanngjörn símakjör fyrir alla ESB- og EES-símanotendur, þar sem menn geta hring á eigin heimagjaldi um alla álfuna, styrkt réttindi ferðamanna gagnvart flugfélögum og annarri ferðaþjónustu, tryggt neytendum sanngjörn þjónustugjöld banka o.s.frv.).

Það óskoraða ferðafrelsi, dvalarfrelsi, námsfrelsi og starfsfrelsi, sem við njótum um mest alla Evrópu, þó ekki lengur í Bretlandi, eftir Brexit, er líka ESB að þakka.

Það sama gildir, þegar kemur að baráttunni gegn verðsamráði, einokun og markaðsmisnotkun alþjóðlegra stórfyrirtækja og auðhringa. Þar vakir ESB yfir hagsmunum okkar og velferð og bregst hart við, þegar neytendur eða almenningur eru beittir órétti eða yfirgangi. Því miður gildir þessi mikilvæga vöktun og vernd ekki hér, nema að litlu leyti, þar sem við höfum ekki borðið gæfu til að varpa krónunni fyrir róða og taka upp Evru.

ESB leggur mikla áherzlu á okkar sameiginlegu, evrópsku menningararfleifð svo og á viðvarandi menntun og menningu íbúa álfunnar og fjármögnun hennar.

ESB er leiðandi afl á sviði sameiginlegrar tæknilegrar framþróunar, innleiðingu stafrænna lausna og gervigreindar og fjármögnun slíkrar framtíðartækni í Evrópu. Úthlutanir og styrkir, líka til íslenzkra einstaklinga og fyrirtækja, eru ríflegar og fjölmargar.

Það er, semsé, líka fjarri lagi.

Þegar kemur að umhverfisvernd og minnkun mengunar og eiturefna og baráttunni gegn spillingu lofts, láðs og lagar, eyðingu dýra, náttúru og skóglendis, ekki bara í Evrópu, heldur um allan heim, gegnir ESB óumdeildu forystuhlutverki.

Það er því sannarlega mikilvæg og margvísleg þjónusta, sem ESB veitir bandalagsþjóðum sínum, svo og okkur tengdum EFTA-þjóðum, Íslandi og Noregi, fyrir utan alls kyns viðskipta- og efnahagsmál, en á því sviði tryggir sambandið okkur öllum frjálsan og jafnan markaðsaðgang og athafnafrelsi. ESB er líka sá aðili, sem annast og tryggir sameiginleg ytri landamæri Evrópu.

Sumir hér virðast halda, að ESB sé bara markaðs- og gjaldmiðilsmál, en því fer víðs fjarri. Sumir halda líka, að allt það, sem hér að ofan er greint, hafi með einhverjum hætti komið af sjálfu sér, eða sé okkur sjálfum að þakka. Það er, semsé, líka fjarri lagi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: