- Advertisement -

Segir af sér sem varaþingmaður

„…segja af mér tafarlaust sem varaþingmaður Pírata…“

Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður Pírata, hefur sagt af sér sem varaþingmaður. Hann skrifar eftirfarandi af því tilefni:

„Aðfararnótt laugardags rakst ég á Ernu Ýr Öldudóttur, blaðamann og fyrrverandi formann framkvæmdaráðs Pírata, á skemmtistað í Reykjavík. Ég missti stjórn á skapi mínu og sagði hluti við hana sem voru með öllu óviðeigandi.

Sú hegðun sem ég sýndi umrætt kvöld er ekki sæmandi kjörnum fulltrúa. Ég mun axla fulla ábyrgð á gjörðum mínum og bið alla hlutaðeigandi afsökunar og vona að sem minnstur skaði hafi hlotist af.

Í ljósi atburða liðinnar helgar hef ég því ákveðið að segja af mér sem varaþingmaður Pírata, frekar en að láta þessa hegðun kasta rýrð á samstarfsfélaga mína og Alþingi. Mér er annt um virðingu Alþingis, traust fólks á kjörnum fulltrúum, en sér í lagi er mér annt um þau þúsundir manna sem kusu Pírata og öll þau hundruð sem lögðu á sig þrotlausa sjálfboðavinnu til að tryggja mér kjör. Af virðingu fyrir því umboði sem allt þetta fólk veitti mér hef ég ákveðið að segja af mér tafarlaust sem varaþingmaður Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður og víkja úr öllum ábyrgðarstöðum sem Píratar hafa falið mér.

Ég ætla mér að læra af þessum mistökum og biðst innilega afsökunar á hegðun minni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: