- Advertisement -

Segir Alþingi vera kvenfjandsamlegan vinnustað

Það er enginn dugnaður að hanga hérna til miðnættis eða til morguns og tjá sig út í hið óendanlega um eitthvað sem mögulega engin pólitísk ósátt er um.

Dagbjört Hákonardóttir.

„Nú eigum við einhverja fimm daga eftir af starfsáætlun þingsins og við vitum nú sennilega flest að við verðum hérna talsvert lengur. Hvenær okkur tekst svo að ljúka þessu mjög svo áhugaverða löggjafarþingi á þessum stórskrýtna en dásamlega vinnustað vita fáir, því að þótt ég gangi hér, eins og langflestir inni í þessum sal, stolt til leiks alla daga, ekki flesta heldur alla daga, þá er þetta í lok dags starf sem er þrátt fyrir allt sérhannað fyrir þau sem finnst bara eðlilegt að í margar vikur geti þingmenn ekki sótt á leikskóla, ekki eldað kvöldmat og ekki svæft börnin sín. Nei, það mætti kalla þetta kvenfjandsamlegan vinnustað, þó að ég sé reyndar sjálf mjög fegin að sleppa bara undan þessari vakt. En þetta er engin tímastjórnun,“ sagði Dagbjört Hákonardóttir Samfylkingu, á Alþingi fyrr í dag.

„Þetta er enginn agi og þetta er ekkert eðlilega lélegt skipulag. Það er enginn dugnaður að hanga hérna til miðnættis eða til morguns og tjá sig út í hið óendanlega um eitthvað sem mögulega engin pólitísk ósátt er um. Mér finnst ég verða að benda fólki hér inni á að þetta er eiginlega bara svona á Íslandi. Á Norðurlöndunum er dagskrá þingsins svo gott sem meitluð í stein og þegar norrænir þingmenn halda út í sinn dag þá vita þeir eiginlega alltaf, með einstökum undantekningum, klukkan hvað atkvæðagreiðslur eru, klukkan hvað þeirra ræður fara fram og hvaða ráðherrar munu taka þátt í þeim og, haldið ykkur fast: Þeir vita klukkan hvað þingfundi lýkur. Þetta er ótrúlegt dæmi,“ sagði Dagbjört.

Áfram hélt Dagbjört:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skiptum bara um gír, förum með pólitíkina víðar og út úr þessu húsi og skellum bara í lás hérna á kvöldin.

„Sex klukkutíma umræður um fríverslunarsamning sem allir ætla að styðja eða endurtekið efni í tugi klukkustunda um veiðigjöld, það er ekki þjónusta við kjósendur. Ég ætla að leyfa mér að tala út frá því kjörtímabili sem leið. Vorum við í Samfylkingunni hér að íþyngja þessum sal með tafaleikjum, endurteknu efni og lesa upp úr stjórnsýsluréttarkennslubókum úr lagadeild eða ræðum sömdum með hjálp gervigreindar? Nei, forseti. Hvað gerðum við? Við sögðum það sem við þurftum að segja. Þegar það var búið þá settum við punkt og við fórum bara út úr þessu húsi. Og vitið þið hvað, við töluðum bara við kjósendur og við gerðum eiginlega mest af því að hlusta á það hvað fólk hafði að segja. Og hvernig finnst fólki það hafa gengið fyrir okkur? Það verður bara að skoða fjölmiðla til að sjá hvernig fólki finnst alla vega það hafa gengið fyrir okkur. Af því að ég er á móðurlegu nótunum þá er það móðurlegt ráð mitt til þingheims: Skiptum bara um gír, förum með pólitíkina víðar og út úr þessu húsi og skellum bara í lás hérna á kvöldin. Það eru allir hættir að hlusta.“ 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: