- Advertisement -

Segir Hafnarfjörð hafa tapað milljörðum

Ágúst Bjarni Garðarsson.

Þingmaðurinn,  bæjarfulltrúinn og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, Ágúst Bjarni Garðarsson, sagði á Alþingi:

„Þetta hefur kostað sveitarfélagið milljarða þar sem þetta hefur tafið uppbyggingu á mjög vænlegu byggingarlandi. Nú er málið í ferli, er í mati á umhverfisáhrifum.“

Tilefnið voru vandræði með flutningu raflína, sem nú eru nærri byggð í Vallarhverfi þeirra Hafnfirðinga, en til hefur staðið að færa raflínur og tengivirki fjær byggðinni. „Það var snemma árs 2018 sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 21. júní 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1. Niðurstaða nefndarinnar var og er enn mikil vonbrigði,“ sagði Ágúst Bjarni.

Ágúst Bjarni:

Svo má gera ráð fyrir nýju kæruferli við útgáfu framkvæmdaleyfa með tilheyrandi töfum, samanber Suðurnesjalínu 2 sem hefur tekið um 15 ár í skipulagsferli.

„Samkomulag var gert um bráðabirgðaflutning línunnar í upphafi árs 2019 og lauk þeim flutningi sama ár. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðar árið 2005–2025 og í gildandi aðalskipulagi 2013–2025 er gert ráð fyrir Lyklafellslínu. Línan er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og það sama gildir um aðalskipulag sveitarfélaganna þar sem línan liggur um. Hafnfirðingum og þá sér í lagi íbúum á Völlunum hefur verið lofað í 10–12 ár að Hamraneslínur yrðu fjarlægðar. Þetta hefur kostað sveitarfélagið milljarða þar sem þetta hefur tafið uppbyggingu á mjög vænlegu byggingarlandi. Nú er málið í ferli, er í mati á umhverfisáhrifum. Hver sem niðurstaðan verður úr því ferli þarf nýtt framkvæmdaleyfi og jafnvel breytingu á aðalskipulagi allra sveitarfélaganna á ný. Svo má gera ráð fyrir nýju kæruferli við útgáfu framkvæmdaleyfa með tilheyrandi töfum, samanber Suðurnesjalínu 2 sem hefur tekið um 15 ár í skipulagsferli. Þetta er auðvitað óboðleg stjórnsýsla fyrir alla og vil ég hvetja hæstvirtan ráðherra til að taka öll þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar og gera ferlið mun skilvirkara með þeim breytingum og þeirri verkaskiptingu sem fram undan er hjá Stjórnarráðinu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: