- Advertisement -

Segir Miðflokkinn bulla og vera til skammar

„Það er fordæmalaust að sjá heilan þingflokk halda úti jafn öfgafullri, vitlausri og rangri umræðu sem beinlínis er ætlað að blekkja þjóðina í þessu máli. Það er háttvirtum þingmanni og samflokksmönnum hans til skammar.“

Þetta eru óbreytt orð Þorsteins Víglundssonar, varaformanns Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Það var að lokinni ræðu Ólafs Ísleifssonar sem Þorsteinn steig í ræðustól. Þorsteinn byrjaði af krafti:

„Ég verð að viðurkenna að ræða háttvirts þingmanns veldur mér nokkrum vonbrigðum,“ sagði Þorsteinn um ræðu Ólafs Ísleifssonar.

„Ég verð að viðurkenna að ræða háttvirts þingmanns veldur mér nokkrum vonbrigðum. Ég átti von á því, eftir æði ruglingslegan málflutning Miðflokksmanna hér á næturlöngum fundum í vor, eftir að hafa fengið gott sumarfríi og gott rúm og tóm til að skerpa mál sitt og sýna okkur í eitt skipti fyrir öll hvað það væri sem væri svona hættulegt við þetta mál, þá fengjum við mikla og góða þrumuræðu með útskýringu á því. En svo var ekki. Hér er bara framhald á sama samhengislausa bullinu og flutt hefur verið í þessu máli frá upphafi sem búið er að hrekja.“

Þorsteini fannst ekki nóg sagt og bætti við:

„Háttvirtur þingmaður talar hér um að spurningum hafi ekki verið svarað, að ekki hafi verið fjallað nægilega mikið um þetta mál en ekki hefur verið rætt meira um nokkurt mál hér í þingsal en þetta tiltekna mál. Um ekkert mál liggja fyrir jafn mörg hlutlaus sérfræðiálit sem öll eru samdóma í því að hrekja hverja einustu fullyrðingu sem Miðflokkurinn hefur fært fram í málinu. Það er ekkert í þessu máli sem brýtur í bága við stjórnarskrá. Þvert á móti er þetta fyllilega í samræmi við það hvernig við höfum innleitt aðrar EES-gerðir. Allar staðhæfingar um hið gagnstæða eru rakið bull. Það er ekkert í þessu máli sem framselur með einum eða neinum hætti forræði okkar eða ráðstöfun yfir auðlindum, ekki nokkur skapaður hlutur. Allar fullyrðingar eða hálfkveðnar vísur sem Miðflokkurinn hefur flutt um það eru rakið bull. Það er ekkert sem knýr okkur til að leggja sæstreng og fullyrðingum um einhvers konar samningsbrotamál hefur verið lýst sem lögfræðilegum loftfimleikum. Þetta er rakið bull. Það er ekkert sem knýr okkur til að breyta eignarhaldi á orkufyrirtækjum okkar. Fullyrðingar um annað eru algjörlega rakið bull.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: