- Advertisement -

Síaukið fiskeldi borgi meira til byggðanna

„Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu.“

Halla Signý KRistjánsdóttir.

Alþingi Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki fer fyrir þingmannahópi, sem vill að fyrirtækjum sem eru með sjókvíaeldi, verði gert að borga til samfélaganna sem þurfa hraða uppbyggingu til að mæta kostnaði þeirra vegna atvinnugreinarinnar.

„Sjókvíaeldi er nýleg atvinnugrein hér á landi sem hefur byggst hratt upp undanfarinn áratug. Fari framleiðsla í hámarksmagn samkvæmt burðarþolsmati svæða sem fiskeldinu eru afmörkuð er talið að útflutningsverðmætið verði nær 65 milljörðum kr. Í dag er útflutningsverðmæti um 40 milljarðar kr. árlega og starfa um 600 manns í atvinnugreininni. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna er bundin í greininni og frekari fjárfesting bíður þess að fá leyfi til rekstrar. Útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda. Innviðir þurfa að vera fyrir hendi til að styðja við uppbyggingu greinarinnar sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt greinarinnar og sem mestan ávinning af henni,“ sagði Halla Signý í þingræðu um málið.


„Árið 2004 ákváðu stjórnvöld að sjókvíaeldi yrði einungis leyft á hluta Austfjarða og Vestfjarða og í Eyjafirði. Sú ákvörðun byggðist á því að vernda þyrfti ár þar sem stundaðar væru veiðar á villtum laxi. Frá þeim tíma hafa sveitarfélög á Vestfjörðum og Austurfjörðum sem hýsa þessa starfsemi unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað. Hér er um að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla. Sveitarfélögin njóta þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist með hlutfallslegri fjölgun yngra fólks. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir fyrir sveitarfélög svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu. Því er mikilvægt að hugað sé að gjaldtöku af greininni með það að markmiði að styrkja nærsamfélögin,“ sagði Halla Signý.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: