Stjórnmál „Ég var að hlusta á Vikulokin á Rás 1 og fékk góða hugmynd,“ skrifaði Sigmundur Davíð.
„Sigríður Á Andersen var í þættinum sem hinn staki fulltrúi mið- eða hægrimanna eins og stundum er leyft. SÁA stóð sig afburða vel eins og við var að búast en hugmyndin er þessi:
RÚV býður mér að stjórna einum þætti af Vikulokunum þar sem ég tek fulltrúa 4. valdsins tali.
Ég mun gæta hlutlægni og fá gesti úr ólíkum áttum. Einn frá fréttastofu RÚV, einn frá Rás 1 eða 2 og einn úr sjónvarpi RÚV (t.d. GíslaMertein) og vera sanngjarn.“

Þetta rifjar upp að þegar ég var með þáttinn minn, Spengisand á Bylgjunni og SDG var forsærisráðherra fannst honum ég ósanngjarn í leiðurunum sem ég las í upphafi hvers þáttar. Við tuðuðum um þetta dágóða stund, þar til ég bauð honum að hafa sinn eigin leiðara í upphafi næsta þáttar. Sem forsætisráðherrann þáði.
Mér er fyrirmunað að muna hvað hann sagði. Hitt man ég að mér þótti þetta fyndið. Þó voru ekki allir sammála mér. Sáu ekki húmorinn og fullyrtu að ég hefði afsalað mér einhverju. Sem auðvitað ekki var.