- Advertisement -

Sigmundur Davíð hélt tvær ræður í röð og þingmenn brugðust við

Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Athygli vakti að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk að halda tvær ræður röð. Flokksfélagi hans, Þorsteinn Sæmundsson, var forseti þingsins þegar þetta henti. Tveir þingmenn brugðust við, Helgi Hrafn Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

„Ég tók eftir því í lok síðust umræðu að háttvirtur þriðji þingmaður Norðausturkjördæmis, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók tvær ræður í röð. Nú er það mér að meinalausu að við fáum að njóta nokkurra mínútna í viðbót af hugviti háttvirts þingmanns en þetta er á skjön við það sem ég hef þekkt af þingi hingað til og hef verið hér frá 2013, mínus eitt ár, milli 2016 og 2017. Reglan hefur verið sú á meðan ég hef verið hér að það komi a.m.k. einn ræðumaður á milli en svo var ekki í þetta sinn. Háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls.

Mig langar að spyrja virðulegan forseta hvort þetta samræmist reglum og venjum hér þegar kemur að fundarhaldi í þinginu vegna þess að ef þetta er leyfilegt þá verð ég að segja að það breytir svolítið miklu um það hvernig við getum búist við því að umræður hér þróist í framtíðinni. Mér finnst það svolítið mikilvægt upp á framtíðina að gera,“ sagði Helgi Hrafn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég var einmitt að horfa á þetta í sjónvarpinu…

Bjarkey Olsen sagði: „Ég var einmitt að horfa á þetta í sjónvarpinu og sá þegar háttvirtur þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson steig til hliðar og ég hélt að hann væri að ræða við forseta. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég leit á klukkuna að hann var kominn í aðra ræðu. Ég held að það samræmist ekki því sem við höfum átt hér að venjast og störfin hafa byggt á fram til þessa, það hefur alltaf einhver þurft að fara á milli. Ég bið hæstv. forseta að veita okkur skýra leiðsögn í því hvort þetta sé eitthvað sem við ætlum að fara að taka upp, að geta farið í ræðu bara úr ræðustól og í ræðustól. Það held ég að hljóti að vera einhver yfirsjón hjá forseta í þetta sinn, ég vona svo sannarlega að það sé, því að annars gæti einn og sami maðurinn bara staðið hér og valhoppað á milli ef enginn annar er á mælendaskrá.“

Sem fyrr segir var Þorsteinn Sæmundsson í stóli forseta. Hann sagði:

„Því er til að svara að yfir þetta mál verður farið í forsætisnefnd þingsins og þar verður gaumgæft hvort hér hafi átt sér stað mistök eður ei. Í þessu tilfelli var það hins vegar vilji þess forseta sem hér stendur og situr að stytta umræðuna í samræmi við þar um gert samkomulag.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: