- Advertisement -

Sigurður Ingi taki hendur úr vösum

„Er hann að gæta hagsmuna einhverra annarra en almennings? Er hann að gæta hagsmuna leigufélaga eða einhverja húsnæðisbraskara?“

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurjón: „Það er alveg augljóst að það var og er þannig að Framsóknarflokkurinn er kominn langt út af brautinni og fólkið er komið í síðasta sæti hjá hæstvirtum iðnaðarráðherra.“

Alþingi „Ég er kominn hingað til að reyna að vekja hæstvirtan innviðaráðherra til þess að hann fari nú að taka hendur úr vösum hvað varðar húsnæðisvandann og reyndar fleiri mál. Það vantar sárlega íbúðir en það er ekki að sjá að neitt sé að gerast nema þá að ráðherra setur upp íburðarmiklar glærusýningar, jafnvel fyrir næstu tvo, þrjá áratugina, en það sem liggur fyrir á kjörtímabilinu stenst ekki þessar langtímaáætlanir og er heldur langt frá því að uppfylla þá þörf sem blasir við þjóðinni,“ sagði Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins, á Alþingi.

Sigurjón rökstudddi mál sitt:

„Það er engin furða að það hægist á vegna þess að efnahagsstefnan og stefna Seðlabankans hefur verið að koma á okurvöxtum, sem hægir auðvitað á framkvæmdum þannig að það er farið að bíta í skottið á sér og veldur jafnvel aukinni verðbólgu, þetta vaxtaokur. Húsnæðisverð fer því hækkandi og ekki bæta úr skák hrakningar Grindvíkinga. Það hefur legið fyrir í dágóðan tíma að það þyrfti að finna lausn á vanda þeirra. Ríkisstjórnin er búin að leysa lítinn hluta vandans, þ.e. með uppkaupum í gegnum Þórkötlu, en hið augljósa stendur út af borðinu: Það vantar íbúðir, það vantar húsnæði en ekkert gerist. Margir hafa bent á að árið 1973 var hér gripið til sértækra aðgerða en nú, árið 2024, virðist innviðaráðherra vera alveg fyrirmunað að grípa til aðgerða. Það voru hér reist einingahús sem skreyta m.a. borgina og nágrannasveitarfélög. Ég tel að fyrir löngu hefði átt að vera búið að fara í aðgerðir af þessu tagi.“

Að lokum sagði Sigurjón: „Það er rétt að velta upp hérna í lokin, herra forseti: Hvers vegna er það, hvar er þessi tregða hjá hæstvirtum innviðaráðherra við aðtaka hendur úr vösum? Er hann að gæta hagsmuna einhverra annarra en almennings? Er hann að gæta hagsmuna leigufélaga eða einhverja húsnæðisbraskara? Það er alveg augljóst að það var og er þannig að Framsóknarflokkurinn er kominn langt út af brautinni og fólkið er komið í síðasta sæti hjá hæstvirtum iðnaðarráðherra.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: