- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn er við suðumark

Sigurjón Magnús Egilsson:

Það yrði lausn á mörgum vanda ef stjórnin fer frá. Vantraustið er það mikið að vita vonlaust er að ríkisstjórn Katrínar nái að ganga í takt og þá alls ekki að fá landsmenn með sér.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins reitar hár sitt og skegg. Og víðar í flokknum eykst óþolið dag frá degi. Svandís Svavarsdóttir er ástæðan þessarar miklu vanlíðunar. Flokkurinn vill umfram allt að Kristján Loftsson fái að veiða þá hvali sem hann vill. Svandís hefur hins vegar valdið og segir stopp. Hingað og ekki lengra.

Þar með náði hún að strjúka sjöllunum öfugt. Þeir öskra og kveina í sínum bergmálshelli. Það haggar ekki Svandísi. Hún bakkar ekki fet. En hvernig er þá ástatt á stjórnarheimilinu? Þrátt fyrir fylgishruns stjórnarflokkanna og stórkostlegt vantraust þjóðarinnar á ríkisstjórninni, segir Katrín forsætisráðherra að traust milli hennar og Bjarna og Sigurðar Inga bifist ekki. Þau treysta hvert öðru. Eins og ekkert hafi í skorist. Trúi hver sem vill.

Það yrði lausn á mörgum vanda ef stjórnin fer frá. Vantraustið er það mikið að vita vonlaust er að ríkisstjórn Katrínar nái að ganga í takt og þá alls ekki að fá landsmenn með sér. Lítið fer fyrir Bjarna þessa dagana. Hann hefur eflaust meira en nóg að gera. Aftur og aftur fjölgar boltunum sem hann verður að halda á lofti. Staða Bjarna er ómannleg. Hann verst svo víða. Lindarhvoll, Íslandsbanki og víðar.

Þingflokksformaðurinn, Óli Björn, lýsir ástandinu ágætlega í nýrri Moggagrein. Samkvæmt Óli Birni er ríkisstjórnin á bjargbrúninni. Er þá ekki best að ýta henni framaf. Þetta er hvort eð er búið spil.

Herra Sigurbjörn Einarsson biskup sagði eitt sinn eitthvað á þessa leið: Sá sem selur sig einu sinni, mun alltaf tapa.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: