- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn og stálhnefinn

„Utanríkisráðherra vill nota líf þessa fólks sem pólitíska skiptimynt til að ná fram einhverjum lagabreytingum og þangað til þá mega þessi börn og þessar konur bara bíða á Gaza.“

Þórhilldur Sunna Ævarsdóttir Pírati.

Alþingi. „Hæstvirtur forsætisráðherra hefur sagt það vera mjög flókið að aðstoða fólk sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi að komast frá Gaza til Íslands. Það sé gríðarlega flókin aðgerð. Tvö viðtöl sem hæstvirtur utanríkisráðherra veitti í gær útskýra fyrir okkur nákvæmlega hvað það er sem er svona flókið. Það hangir eitthvað meira á spýtunni en það hvort vilji sé til þess að sækja þetta fólk eða ekki, hvort það sé flókin aðgerð eða ekki,“ sagði Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir á Alþingi í dag.

„Það þarf fyrst að sammælast um að herða enn frekar reglur um flóttafólk á Íslandi. Það þarf að samþykkja kröfu Sjálfstæðisflokksins um að nota stálhnefann sem þeir hafa viðrað oft að þeir vilji nota gagnvart fólki á flótta. Öðruvísi komast hingað börn og konur og menn frá Gaza, sem föst eru á stað sem lýst hefur verið sem helvíti á jörð, ekki til Íslands vegna þess að það myndi senda þau skilaboð að það sé hægt að koma til Íslands. Það þurfi nú að senda harðari skilaboð en svo að það megi koma til Íslands. Þetta er fólk sem hefur fengið samþykkt dvalarleyfi á Íslandi. Hér erum við ekki að tala um einhvern nýjan fjölda fólks. Hér erum við ekki að tala um einhverjar nýjar reglur. Við erum að tala um fólk sem er fast á stríðssvæði þar sem Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur áhyggjur af að sé verið að fremja þjóðarmorð. En hæstvirtur utanríkisráðherra vill nota líf þessa fólks sem pólitíska skiptimynt til að ná fram einhverjum lagabreytingum og þangað til þá mega þessi börn og þessar konur bara bíða á Gaza,“ sagði Þórhildur Sunna og endaði svona:

„Þetta er ótrúlega dapurlegt að heyra, virðulegi forseti, en það er gott að við fáum loksins fram hinar raunverulegu ástæður þess að ekki tekst að standa vel að fjölskyldusameiningum. Það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill nota líf þessa fólks sem skiptimynt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: