- Advertisement -

Skattaskjólin byrjuðu sem mútuskjól

Afbrot í Namibíu eru viðfangsefni yfirvalda í Namibíu.

Ragnar Önundarson skrifar:

Skattaskjólin byrjuðu sem mútuskjól. Nú eru 200 ár síðan iðnbyltingin var komin á mikinn skrið á Vesturlöndum. Það kallaði á aðgang að hráefnum og þá kom sér vel að iðnríkin höfðu lagt nýlendur undir sig. Hráefnin streymdu óunnin til iðnríkjanna og sköpuðu þar atvinnu og velmegun. Íbúar nýlendanna bjuggu flestir áfram við örbirgð, en einhverjir högnuðust. Á síðustu öld fóru nýlendurnar að brjótast um til sjálfstæðis. Iðnríkin gátu ekki staðið gegn þeirri þróun, en fundu leið til að tryggja sér hráefnin áfram: Mútur voru greiddar til ráðandi elítu hverju sinni. Mútuskjólin blómstruðu og færðu út kvíarnar, skattaskjól mátti auðveldlega veita samhliða upphaflegri „þjónustu“. „Skálkaskjól“ væri etv. viðeigandi heiti síðan.

Stórveldin sáu nytsemi þjónustunnar og létu aflandsstarfsemina í friði. Sviss, Luxemburg, Lichtenstein, Gíbraltar, Hong-Kong, Macau og margar eyjar víða um heim, þmt. Kýpur og Malta. Umsvifamestar þessara eyja voru og eru Manhattan og Stóra Bretland. Skemmst er að minnast þess að fáum árum fyrir hrun fór fram athugun, á hvort Ísland ætti að lást í hópinn, á vegum stjórnvalda. Ekki varð af því, en landið hefur ítrekað ,,sett kíkinn fyrir blinda augað” og gert samninga við stóriðjufélög sem sniðganga skattgreiðslur hvar sem þau drepa niður fæti, með tilhæfulausum kostnaðarreikningum. Alusuisse var staðið að „hækkun í hafi“ fyrir um 40 árum, til að koma í veg fyrir hagnað hjá Ísal, en það hafði engar afleiðingar. Þó okkur sé spillingin ljós aðhöfumst við ekki, en löngunin til að taka þátt í henni skýtur öðru hvoru upp kollinum.

Alþjóðleg fyrirtæki Vesturlanda sækja í auðlindirnar.

Afríka er vanþróaðasta álfa veraldar, full af náttúruauðlindum. Alþjóðleg fyrirtæki Vesturlanda sækja í auðlindirnar, en ráðamenn meðal heimamanna gera áhugasömum ljóst að vilji þau fá starfsleyfi þurfi þau að ,,liðka til” fyrir þeim með „þóknunum“. Búa verði eins og á þeim bæ er títt. Ef þetta mæti ekki skilningi fái önnur fyrirtæki leyfin. Með þessum skrifum er ég að minna á að vandi Afríkuríkja er að hluta heimafenginn. Væru fátækar þjóðir betur settar ef fjárfestar sneru frá og auðlindirnar væru ónotaðar ? Kapítalisminn ræður för. Það er engin „vinátta“, ekkert ,,siðferði”, engin „mannúð“, bara hagsmunir. Mannkynið hefur „drifhjól“ sem öllu stýrir og það heitir „græðgi“. Ef „við“ nýtum ekki tækifærin munu aðrir gera það, er afstaða allra landa, nema eins.

Íslendingar, sem þrá það mest að vera „öðrum þjóðum fyrirmynd“, ættu að fara að átta sig á að þeir eru síst betri en aðrir. Finnast ekki dæmi hér um að græðgin hafi leitt okkur afvega ? Eftir hrun reyndumst við ófær um að fylgja málum eftir, illa fengið fé var ekki elt uppi. Hver ákvað það ? Nú streymir þetta fé „hvítþvegið“ til landsins og þeir sem drógu sér það eru virðulegir fjárfestar, en ekki þjófar.

Afbrot í Namibíu eru viðfangsefni yfirvalda í Namibíu. ,,Stórasta land í heimi” getur unað sér við drauminn um að komast í Öryggisráðið, notið þess að vera í Mannréttindanefnd SÞ undir forsæti Saudi-Araba og siðað Gyðinga og Múslima til með siðaboðskap um „umskurð“. Henni mun ábyggilega leggjast fleira til, hún er „öðrum þjóðum svo miklu fremri á allan hátt“, eins og sagt var fyrir hrun.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: