- Advertisement -

Skattaskjólspeningarnir eru notaðir til að kaupa meiri kvóta, fyrirtæki, fjölmiðla og aðrar eignir

Við munum aldrei sætta okkur við að hópur auðmanna ræni okkur velferðinni og atvinnutækifærunum!

Lilja Mósesdóttir skrifaði:

Fróðlegt er að fylgjast með umræðunni í kjölfar umfjöllunar Kveiks um greiðslur Samherja til áhrifamanna í Namibíu í gegnum skattaskjól á Kýpur og Dubai. Margir telja að markaðsvæðing kvótakerfisins muni m.a. koma í veg fyrir slíka spillingu á Íslandi. Markaðsvæðing kvótakerfisins í Namibíu sýnir að þessi leið hefur sína galla.
Hvað getum við þá lært af Samherja-skandalnum?
Jú, að sala og leiga á fiskkvóta er uppspretta mikils auðs sem margir reyna að fela í skattaskjólum til að komast hjá því að fjármagna velferðarkerfi okkar og margra fátækra landa í m.a. Afríku. Á Íslandi eru skattaskjólspeningarnir síðan notaðir til að kaupa meiri kvóta, fyrirtæki, fjölmiðla og aðrar eignir.
Það verður ekki komið í veg fyrir undanskot og peningaþvætti fyrr en auður, sem nýtur verndar í gegnum falið eignarhald á fyrirtækjum og reikningum í skattaskjólum, verður skattlagður! Fyrsta skrefið í þá átt er að skattyfirvöld fái víðtækar heimildir og fjármagn til að rannsaka sölu og leigu á kvóta aftur í tímann með það fyrir augum að afhjúpa og sekta skattaundanskot. Næsta skref er að innleiða í lög ákvæði um að gefa verði upp nöfn eigenda fyrirtækja og reikninga í skattaskjólum, þegar fjármagn er fært frá Íslandi inn á þessa reikninga. Jafnframt þarf að vinna að því alþjóðlega að banna fjármagnsfærslur til þekktra skattaskjólslanda. Ef þessi leið reynist ófær, þá er ekki um annað að ræða en að banna framsal og leigu á kvóta og koma upp byggðakvótakerfi. Við munum aldrei sætta okkur við að hópur auðmanna ræni okkur velferðinni og atvinnutækifærunum!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: