- Advertisement -

Skólarnir komi á undan Óðinstorgi

Ummælum um viðhaldsleysi er vísað til föðurhúsanna.

Lengi hefur staðið til að taka Óðinstorg í gegn.

„Uppsafnaður skortur á viðhaldi undir stjórn núverandi meirihlutaflokka hefur valdið ómældum skaða. Ljóst er að fara þarf í fjárfrekar viðhaldsframkvæmdir á skólahúsnæði borgarinnar sem ættu að vera ofar á forgangslistanum. Þetta er skýrt dæmi um ranga forgangsröðun í rekstri borgarinnar,“ bókuðu minnihlutaflokkarnir, að frátöldum Sósíalistaflokki, í borgarráði þegar rætt var um fyrirhugaðar framkvæmdir á Óðinstorgi.

Meirihlutinn er ekki sömu skoðunar og bókaði:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Lengi hefur staðið til að taka Óðinstorg í gegn í kjölfar afar vel heppnaðra Torg í biðstöðu verkefna sem eru verkefni þar sem gerðar eru tilraunir með að nýta borgarrýmið, torg, götur og bílastæði á nýjan hátt.“

„Þó það sé vissulega mikilvægt að bæta borgarlandið eru önnur verkefni sem ekki er gert ráð fyrir á fjárhagsáætlun brýnni,“ segir minnihlutinn. „Má hér nefna skólahúsnæði reykvískra barna sem þurfa að hafa forgang. Hér er um að ræða 300 milljónir kr. samkvæmt áætlun en nýleg dæmi eru um hressilega framúrkeyrslu verkefna. Þá er óvissa um viðbótarkostnað vegna fornleifa.“

„Forgangsröðun meirihlutaflokka borgarstjórnar í fjárfestingaráætlun hefur einmitt einkennst af áherslu á viðhald og framkvæmdir í skólahúsnæði, frístundaheimilum og leikskólum um alla borg og ummælum um viðhaldsleysi vísað til föðurhúsanna,“ segir meirihlutinn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: