- Advertisement -

Smjörklípuaprílgabb í maí

Guðlaugur Þór Þórðarson er leikstjórinn og handritshöfundurinn að nýjustu brellu ríkisstjórnarinnar. Tilefni leikgerðarinnar er að rétta ögn hlut Vinstri grænna og Katrínar Jakobsdóttur. Efni leikgerðarinnar er hreint galið en samt er til fólk sem trúir í raun og veru því sem sett er á svið.

Vitað er að hlutur Vinstri grænna, í ríkisstjórn Katrínar, er rýr. Planið er augljóslega að rétta stöðuna, það er út á við. Leitað var leiða. Guðlaugur Þór átti bestu hugmyndina. Hernaðaruppbygging í Helguvík. Geggjað og galið. Farið var af stað. Auðvitað fengu Vinstri græn fínt hlutverk. Segjast vera á móti. Á móti því sem er ekki og verður aldrei. Það vita þau öll.

Leikþátturinn er settur upp í Mogganum. Í dag má lesa rullu Sigríðar Á. Andersen og Katrínar.

Byrjum á Sigríði, hún fer alveg hreint á kostum:

Þar væri auk þess um póli­tíska stefnu­breyt­ingu að ræða.

„Við tök­um þátt í varn­ar­sam­starfi vest­rænna ríkja af full­um hug, en auk þess bygg­ist þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands á varn­ar­sam­starfi við Atlants­hafs­banda­lagið og Banda­rík­in. Ef sam­starfs­ríki okk­ar meta það svo að nauðsyn­legt sé að bæta innviði þurfa að vera al­veg sér­stök rök til að við för­um gegn því. Þar væri auk þess um póli­tíska stefnu­breyt­ingu að ræða, sem alla jafna ætti að kalla á um­fjöll­un.“

Þetta er frábær innkoma. Reikna má með að Sigríður hristist enn af hlátri. Enda verðskuldar innlegg hennar góðan hlátur hennar sem og allra annarra. Nema þeirra sem eru auðtrúa og halda að þetta sé raunveruleikinn.

Þá er það Katrín sjálf.

„Þetta snýr að auk­inni hernaðar­upp­bygg­ingu og mér finnst óviðeig­andi að því sé blandað inn í efna­hagsaðgerðir stjórn­valda. Við erum full­valda ríki og þurf­um ekki á hjálp þaðan að halda í efna­hags­mál­um,“ seg­ir Katrín og ít­rek­ar að afstaða sín til hernaðar­mála sé óbreytt. „Mín framtíðar­sýn fyr­ir Ísland snýst ekki um aukna hernaðar­upp­bygg­ingu. Það á jafn­framt ekki að koma nein­um á óvart.“

Þetta er ágætt, svo sem. Ekki jafn mikil tilþrif og hjá Sigríði. En samt ágætt.

Nú er að bíða næsta þáttar. Reyndar er sama hvað kemur næst og hversu gott eða vont það verður er raunveruleikinn er samt sá að staða Vinstri grænna er jafn aum eftir sem áður. Sama hvaða leikrit verða sett upp. Auðvitað stóð aldrei til að byggð yrðu meiriháttar hernaðarmannvirki í Helguvík. Aldrei.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: