- Advertisement -

Snerra Björns Leví og Brynjars

Öll sem vilja vita, vita að Brynjar Níelsson ber ekki hlýjan hug til Pírata. Það sást greinilega í fjárlagaumræðunni. Þar átti hann í snerru við Björn Leví Gunnarsson. Hér má lesa hvað þeim fór á milli:

Hafa Píratar einhverja skoðun, einhverja pólitíska sýn.

Brynjar: „Ég er bara með eina spurningu. Fjárlög og þær tillögur sem menn koma með endurspegla pólitíska sýn og sjónarmið þingmanna. Hefur háttvirtur þingmaður og flokkur hans yfir höfuð einhverja pólitíska sýn? Er engin skoðun á efnisatriðum þessa frumvarps að ráði? Vilja Píratar hækka skatta, lækka skatta, breyta skattkerfinu, deila peningum öðruvísi út eða snýst þetta bara um eitthvert form, einhver tæknileg atriði sem þingmaðurinn talar um og auðvitað enginn skilur? Þeir sem skilja eru náttúrlega ekki sammála því. En spurningin er: Hafa Píratar einhverja skoðun, einhverja pólitíska sýn, aðra en þá að aðrir séu spilltir og geti ekki farið að lögum?“

Björn Leví: „Við leggjum áherslu á fagleg vinnubrögð þar sem kjarninn hjá okkur er borgararéttindi, tjáningarfrelsi, gagnsæi, beint lýðræði. Það eru okkar ær og kýr þegar allt kemur til alls, í þessum einföldu málum en þó grundvallarmálum. Þau endurspeglast kannski ekkert rosalega mikið í fjárlögunum á hverju ári en þau gera það í þessum fjárlögum, í breytingartillögunum í annarri umræðu. þar sem var lögð til skattalækkun sem passar við þá hagsveiflu sem er í gangi og þar sem réttindi öryrkja voru t.d. tryggð, þar sem er verið að taka af þeim aura núna fyrir hverja krónu sem þeir vinna sér inn. Þar er réttindabarátta. Það endurspeglast í fjárlögum okkar og fjárheimildum. Þess vegna gagnrýni ég gagnsæisskort í þessum fjárlögum, því að án gagnsæisins getur ráðherra gert hvað sem er og við erum á móti því að ráðherra geti gert hvað sem er.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þess vegna gagnrýni ég gagnsæisskort í þessum fjárlögum.

Brynjar: „Ég velti því mikið fyrir mér að allan þann tíma sem ég hef setið á þingi með Pírötum hefur verið afskaplega erfitt að átta sig á pólitískri hugmyndafræði þingmanna flokksins og kannski flokksmanna almennt. Kannski er hún mjög misjöfn. Ég velti fyrir mér: Hvert er hið pólitíska erindi flokksins og þingmanna hans? Eru þeir bara hér til að benda á allt siðleysi og spillinguna eða eru þeir hér til þess að vera í stjórnmálum? Gott og vel, lækka skatta, ég er mjög ánægður með það og ég tek undir það og það er mjög góð pólitík. En þegar maður samt hlustar á þingmenn og flokksmenn í gegnum einhverja miðla upplifir maður ekki þá pólitík að lækka skatta. Ég upplifi flokkinn sem gamaldags vinstri flokk að meginstefnu til sem notar venjulega sýndarmennsku til að koma sér á framfæri. Nú er sýndarmennskan um spillingu, lögbrot o.s.frv. Þetta er allt þekkt í lýðskrumsfræðunum sem eiga sér langa sögu. Ég kalla eftir því að þingmenn Pírata taki alvöruumræðu, hafi einhverja skoðun á þeim stjórnmálum sem hér eru uppi sem varðar þetta frumvarp sem er til umræðu.“

Nei, þetta snýst um hitt vandamálið.

Björn Leví: „Mannréttindi birtast í fjárlagafrumvarpinu. Það kom augljóslega fram í umræðunni á undanförnum dögum þar sem ákveðið spillingarmál var grafið upp hjá íslensku fyrirtæki sem hefur sýnt fram á ákveðna möguleika á mútum og fleiru skemmtilegu og birtist í þeirri einsýnu stefnu, að því er virðist, að hunsa það álag sem það mál getur valdið á fjárlög ríkisins og fjárheimildir hvað þau varðar. Þá verður ekki annað séð á undanförnum árum en að það hafi markvisst verið grafið undan eftirliti og eftirlitsstofnunum, þeim stofnunum sem vernda réttindi okkar, einmitt með lægri fjárframlögum. Það sést á þeim lista sem þær stofnanir hafa og geta ekki klárað, á þeim fjölda frumkvæðisrannsókna sem umboðsmaður Alþingis er með en getur ekki lagt í. (Gripið fram í.) Það sést kerfislægt á þeim úrskurðarnefndum sem eru úti um allt kerfið og eiga að hjálpa okkur við að verja réttindi okkar og hversu langan tíma þær taka í að svara og klára málin sín. Þar er sýndarmennskan, hv. þingmaður, þegar fjármálaráðherra galar hægri, vinstri — og hver er í vinstri stjórn annars? svo maður minnist aðeins á það — þegar hæstv. fjármálaráðherra galar hægri, vinstri yfir þingsalinn að það eigi að velja eitthvert sérstakt mál til að sækja til saka o.s.frv. Nei, þetta snýst um hitt vandamálið. Hvernig er búið að grafa undan fjárheimildum eftirlitsstofnana okkar sem eiga að geta sinnt þessu en hafa ekki verið að gera það.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: