„En ég ætla nú að leyfa mér að halda því fram að þar hafi þingmenn stjórnarandstöðunnar frekar skautað út af beinu línunni en þingmenn stjórnarinnar.“
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
„Líkt og fram hefur komið hér í pontu núna í umræðu um veiðigjöld þá eru veiðigjöld ekki bara tölur á blaði. Þetta snýst um framtíð heilu samfélaganna; um störf, um tekjur og um lífsviðurværi fólks. Á meðan ráðherra heldur því fram að hér sé bara verið að leiðrétta eitthvað þá heyrast úr hópi stjórnarliða fullyrðingar á þennan veg, með leyfi forseta: Þetta dugir ekki. Við þurfum að ganga lengra. Hækkun veiðigjalda er aðeins fyrsta skrefið til að tryggja þjóðinni eðlilegan afrakstur af auðlindinni. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þetta gerist í einhverjum skrefum og þetta er fyrsta skrefið sem hér er tekið,“ sagði Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi.
Jens Garðar hélt áfram:
„Það er greinilega verið að undirbúa næstu skref. Menn eru farnir að tala um uppboðskerfi, tímabundna samninga, fyrningarleið, eignaupptöku. Þetta eru ekki lengur hugmyndir, þetta eru boðuð áform, boðuð áform af þingmönnum meiri hlutans hér úr pontu. Þess vegna spyr ég: Er sú gríðarlega hækkun veiðigjaldanna sem nú er lögð fram aðeins fyrsta skrefið í kerfisbundinni árás ríkisstjórnarinnar á íslenskan sjávarútveg og lífsafkomu fólks vítt og breitt um landið?“
Þá var komið að Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra:
„Ég hygg að þau séu mögulega höfð eftir…“
„Ég þakka háttvirtum þingmanni Jens Garðari Helgasyni fyrir fyrirspurnina sem ég tel reyndar að hefði verið réttara að háttvirtur þingmaður hefði beint til þeirra þingmanna og ráðherra eftir atvikum sem hann hefur þessi orð eftir. Ég hygg að þau séu mögulega höfð eftir í misáhugaverðri umræðu sem fór fram í síðustu viku um veiðigjöld og það er þá eitthvað nýtt ef verið er að taka hér setningar sem til falla og beina í fyrirspurn til ráðherra. Ég ætla bara að halda áfram að tala fyrir þeirri leiðréttingu sem ég hef lagt fram í frumvarpi og er samkvæmt stjórnarsáttmála. Þar hafa verið lögð fram skýr gögn af okkar hálfu um hvernig við erum að leiðrétta þannig að veiðigjöldin verði loksins innheimt í þeim anda sem til var ætlast þegar þau lög voru sett, þ.e. af raunverulegu virði aflans. Hvað varðar einhver orð sem féllu hér í þessari umræðu og háttvirtur þingmaður vísar til — ég bara treysti mér ekki til að taka afstöðu til þeirra.“
Jens Garðar steig í pontu á ný:
„Ég þakka hæstvirtum atvinnuvegaráðherra fyrir hennar svör. En ég velti því samt fyrir mér hvort það væri ekki ráðlegt fyrir hæstvirtwa ríkisstjórn og háttvirta stjórnarþingmenn að samræma aðeins mál þegar kemur að umræðu um risastórt háskattamál á eina atvinnugrein þar sem mörg samfélög og fyrirtæki eru að velta fyrir sér hver stefnan sé, ekki bara núna heldur líka til framtíðar. Hefði hæstvirtur ráðherra ekki þótt meiri bragur á því að hér töluðu háttvirtir þingmenn einni röddu varðandi stefnu hæstvirtrar ríkisstjórnar í staðinn fyrir að boða hér ýmsar útfærslur á framtíðarkerfi og hækkandi sköttum inn í framtíðina næstu ár?“
Hanna Katrín svaraði Jens Garðar:
„Ég get að vissu leyti tekið undir það að sennilega væri það vinnunni hér í þinginu til framdráttar ef þingmenn í ræðum sínum um málið fjölluðu um efnisatriði málsins. En ég ætla nú að leyfa mér að halda því fram að þar hafi þingmenn stjórnarandstöðunnar frekar skautað út af beinu línunni en þingmenn stjórnarinnar.“