- Advertisement -

Sólveig Anna / „Ég bjó í Minnesota“

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ég bjó í Minnesota í 8 ár, frá 2000 – 2008. Fyrst var ég bara að passa litlu börnin mín en svo fór ég að læra um Ameríku. Ég fór að lesa blöð og fylgjast með, hlusta á fréttir, eins mikið og ég gat. Um leið og ég fór dýpra inn í að búa í Ameríku steig ég alltaf lengra og lengra til baka, til að sjá og skilja betur allt það sem var að gerast. Hvít kona af norrænum ættum í Minnesota getur búið í veröld þar sem allt er eins og útbúið sérstaklega fyrir hana. Hún getur keyrt um með ekkert bílpróf og verið tvisvar stoppuð af löggunni og lært að það er ekkert vandamál. „One more thing before I let you go. How do you say goodbye in Icelandic?“. Börnin hennar eru ávallt velkomin alls staðar, litlu englarnir, svo falleg og góð. Hún og þau njóta forréttinda. Þau þurfa bara að mæta og þeim er afhentur arfurinn; evrópskir landræningjar og manneskjuræningjar rétta hann til þeirra yfir aldirnar. Ekkert getur komið í veg fyrir það. Hún þarf að passa sig á að hugsa og skilja af hverju hún má og á, svo hún verði ekki fífl.

Árið 2005 horfði ég á fréttir um fellibylinn Katrínu og sá kerfið afhjúpast í beinni útsendingu. Heimsenda-stormur, risahnefi reginaflsins, heiftarlegt æðiskast af himnum. Fólk í neyð, fólk að deyja, fólk dáið. Og svo fer eitthvað þus að heyrast og svo magnast það upp og verður narratív, einn tveir og nú: „Rán og gripdeildir í New Orleans.“ Fólk reynir að verða sér út um mat og vatn í borg sem er að drukkna og í sjónvarpinu er fólk að segja að þau séu þjófar. George W. Bush er í fríi á búgarðinum sínum í Texas en sjáðu, þau eru að stela. Löggan í New Orleans fær skipun um að skjóta fólkið en sjáðu, þau voru að stela. Kaos ríkir í kjölfar hamfara og þá er mikilvægt að öll skilji fljótt hvað er mikilvægast og má aldrei gleymast, aldrei: Hver á og hver á ekki, hver má og hver má ekki. Hver á að vera svo lítils virði að það að deyja, að drukkna, að svelta er bara eitthvað sem hann á að sætta sig við. „Ég get ekki andað“ hefur ekki sammannlega meiningu sem neyðaróp, er ekkert nema opnunar-atriðið að hinni aldagömlu hefðbundnu amerísku sýningu: „Þau eru að stela.“

Ég fór að grenja og ég öskraði á sjónvarpið: Ég drep ykkur. En ég gat ekkert gert, nema eitt og það var að hætta að grenja og fara að hlusta og heyra og lofa að gleyma aldrei amerískum rasismanum og því hvað hann er og hvað hann þýðir. Lofa að vera til vitnis. Bera ábyrgð á því að fyllast harmi, reiði, bræði, outrage, öskri, viðbjóði, skelfingu, andúð, hatri á amerískum rasisma. Vita að það eru réttu viðbrögðin, einu viðbrögðin. Allt annað er til skammar. Og tími þeirrar tilfinningar er liðinn. Það er ekkert eftir og ekkert í boði nema algjör samstaða með svörtu fólki í Ameríku.

Ég horfði á lítið myndband í gær þar sem Ruth Wilson Gilmore fræðir okkur og segir: „They come out in the streets and clear up in a matter of years the disorder of centuries.“ Og ég vona og bið; guð á himnum, láttu þeim takast það, gerðu það, láttu þau gera það, geta það. Láttu þau sigra. Útaf öllu og fyrir allt, og fyrir okkur öll, fólkið í þessari veröld.

Hér er lag með Mavis Staples þar sem hún kennir okkur og vitnar um ameríska sögu. Þið getið hlustað ef þið viljið.

„With my own eyes

Saw it with my own eyes

With my own eyes

So I know its true“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: