- Advertisement -

Sólveig Anna ekki boðin velkomin

SAJ:

Mér var ekki óskað til hamingju af fráfarandi formanni og á dagskrá fundarins var ekki gert ráð fyrir því að nýr formaður flytti ávarp

„Í gærkvöld var aðalfundur Eflingar loks haldinn. Kjöri stjórnar var lýst sem þýðir að ég og félagar mínir sem sigruðum stjórnarkosningar félagsins erum komin í stjórn og ég tekin við formennsku félagsins á ný. Á fundinum í gær varð mér nokkrum sinnum hugsað til aðalfundarins 2018 þar sem ég tók við formennsku í fyrra skipti. Á þeim fundi var mér óskað til hamingju af fráfarandi formanni, ég flutti ávarp og fékk afhentan blómvönd. Allt eitthvað sem öll ættu að sjá og skilja að er sjálfsagður og eðlilegur hluti af stjórnarskiptum í verkalýðsfélögum og öðrum félagasamtökum, sama hvort að þau sem fara frá völdum er sátt við nýja forystu eða ekki. Almennt siðgæði og velsæmi í samfélagi sem kennir sig við leikreglur lýðræðisins krefst þess einfaldlega að fólk kunni að tapa,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

„En í gær brá svo við að ekkert af þessu gerðist: Mér var ekki óskað til hamingju af fráfarandi formanni og á dagskrá fundarins var ekki gert ráð fyrir því að nýr formaður flytti ávarp (við þurfum ekki að ræða blóma-mál hér, ég veit ekki alveg hvort ég þoli nýjar og áður óframkomnar ásakanir um innræti mitt og eðli, að þessu sinni um hversu smásmuguleg og leiðinleg ég sé). Þess í stað lagði fólk mikið á sig og seildist langt (æ lengra eftir því sem leið á fundinn) til þess að láta lagabreytingatillögur þær sem ég og félagar mínir höfðum skilað til félagsins á réttum tíma samkvæmt lögum, kynnt á félagsfundi og gert aftur grein fyrir á fundinum í gær eins og lög félagsins gera ráð fyrir, hljóma sem ekkert annað en auðvirðilega tilraun mína til að gerast „einráð“ í félaginu, sökum míns illa innrætis og augljósu annarlegu hvata. Þetta er auðvitað fjarri lagi og hverri þeirri manneskju sem ekki hefur tapað hæfileikanum til gagnrýninnar hugsunar hefði átt að vera það ljóst.

Eins og fram kom með mjög skýrum hætti í málflutningi mínum á félagsfundinum sem haldinn var 1. apríl og svo aftur í gær er tilgangur okkar á Baráttulistanum með tillögunum sá að færa lög félagsins til þess veruleika sem stjórn Eflingar og félagið starfa í og hafa gert árum og áratugum saman, frá því löngu fyrir þann tíma er ég tók við formennsku í félaginu árið 2018. Þetta eru tillögur lagðar fram af virðingu fyrir félagsfólki, til þess að þegar fólk les lög félagsins sé það ekki að kynna sér greinar sem séu óvirkar og fallnar úr gildi. Ég tek hér aðeins eitt dæmi um ótrúlegan og ömurlegan málflutning andstæðinga minna í stjórn félagsins á fundinum í gær: Breytingartillaga okkar á 31. grein laga Eflingar (greinin fjallar um sjóði félagsins) sem snýst einungis um að uppfæra og skýra greinina með tilliti til þess hvernig sjóðirnir eru uppbyggðir í dag, hvað þeir heita, hvernig þeir eru fjármagnaðir (annars vegar með iðgjaldi og hins vegar með félagsgjaldi) og hvort þeir eru undirsjóðir annara sjóða var tekin sem dæmi um alvarlega glæpa-aðför mína að starfi félagsins og látið svo hljóma að ef tillagan hlyti brautargengi aðalfundargesta í kosningu myndi það þýða að ég gæti svipt þá þeim réttindum sem þeir eiga í sjóðum. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort að stjórnarmeðlimur sá er notaðist við þennan málflutning í pontu á aðalfundi stærsta félags verka og láglaunafólks á landinu var að reyna að telja fólki trú um að ég myndi geta framið fyrirhugað illvirki upp á mitt einsdæmi eða hvort ég þyrfti vitorðsmenn í þeirri hræðilegu árás sem ég væri með í undirbúningi að hagsmunum Eflingarfélaga. En tilgangurinn er augljós: Reynt er að telja fólki trú um að þrátt fyrir þá staðreynd að ég hafi í tvígang verið kjörinn formaður Eflingar sé ég þess ekki verðug að leiða félagið eða hafi til þess burði; siðferðilega, persónulega, greindarfarslega. Og annað er ekki síður augljóst: Fyrir suma stjórnarmeðlimi stendur kosningabaráttan greinilega enn yfir. Ætli fljótlega fari ekki að koma fram ásakanir um að ég hafi „stolið“ kosningunum? Eflaust hægt að panta „úttekt“ um það.

…einn mesta drullusokk Íslandssögunnar.

Þegar hér var komið sögu (margt auðvitað ósagt hér um ótrúlega atburðarás fundarins) og formannsefni A-listans sem tapaði í kosningunum hafði krafist þess að atkvæðagreiðsla færi ekki fram með handauppréttingum (en eins og öll vita er opin atkvæðagreiðsla með handauppréttingu alsiða í starfi verkalýðsfélaga og félagasamtaka) heldur yrði leynileg (rökin þau að starfsfólk skrifstofunnar en mörg úr þeirra hópi voru mætt á fundinn myndu annars ekki „þora“ að greiða atkvæði) var ljóst að fundur myndi standa fram undir morgun. Greiða þyrfti atkvæði um hverja breytingartillögu og breytingartillögu um breytingatillögu, og telja svo (framkomnar tillögur held ég 14 talsins) atkvæði eftir hverja kosningu og gera grein fyrir niðurstöðunni; af tillitsemi við fundargesti, starfsfólk fundarins og auðvitað starfsfólks hótelsins sem fundurinn var haldinn á lagði ég fram tillögu um aðalfundi yrði frestað fram á sunnudag og var hún samþykkt með miklum meirihluta fundargesta. Þannig að „skemmtunin“ heldur áfram á sunnudag og þá fjölmörg tækifæri fyrir andstæðinga mína í stjórn til að fara í pontu og útmála mig sem ekkert annað en hatursmann félagsins og alls félagsfólks; einræðisherra, siðvilling og einn mesta drullusokk Íslandssögunnar. Ég get ekki sagt að ég hlakki til. En svona virðist þetta bara vera og verður eflaust um langt skeið.

Ég er að hugsa um að birta seinna í dag hér á Facebook ávarp það sem ég hafði skrifað og hélt að ég fengi tækifæri til að flytja á fundinum í gær. Þangað til sendi ég Eflingarfólki og öllum þeim sem styðja okkur á Baráttulistanum kærar kveðjur. Ef væri ég blómvandarstjóri færði ég okkur öllum fagran vor-vönd; í stað hans er hér mynd af vorblómi og flugu; þau eru falleg og segja okkur að sumarið sé í vændum þrátt fyrir allt saman.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: