- Advertisement -

Spá: Miðflokkurinn fer aftur í málþóf

„…að kanna málin ofan í kjölinn og tryggja að ekki sé lagt af stað í háskaför.“

Ólafur Ísleifsson, sem situr fyrir Miðflokkinn í utanríkismálanefnd, hefur talað nokkuð þokukennt um stöðu orkupakkans eftir fundi í nefndinni. Fylgið við Miðflokkinn hefur aukist að undanförnu. Mest, jafnvel einungis, vegna orkupakkans. Þeir sjá sóknarfæri. Og spáin er sú að þeir muni nýta sér það á Alþingi síðar í þessum mánuði. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, talar skýrar en Ólafur hefur gert. Hann kastar fram nýjum spurningum sem þá þarf að svara. Sigurður Páll skrifar grein í Fréttablaðið. Þar er þetta að finna:

„Nú þætti mér fróðlegt að fá frekari upplýsingar um hvort ríkisstjórnin hafi látið leggja mat á hverjar skaðabæturnar yrðu ef svo illa vill til að sótt verði samningsbrotamál gegn landinu eftir þá hálfkáks innleiðingu sem nú er lagt upp með. Hefur það ef til vill ekki verið kannað? Það er ábyrgðarhluti að stjórna heilu landi og vissulega er mikilvægt að setja á sig bæði belti og axlabönd, sérstaklega þegar kemur að háum fjárhæðum sem Ríkissjóður Íslands gæti þurft að standa straum af. Því er ég hissa á þessu öllu saman.“

„Ég er hissa á því að ríkisstjórnin loki eyrunum gagnvart efasemdaröddum úr samfélaginu.“

Ekki er unnt að spá logni á Alþingi eftir þennan lestur. Hvað þá eftir þennan:

„Ég er hissa á því að ríkisstjórnin loki eyrunum gagnvart efasemdaröddum úr samfélaginu, löglærðum og sérfróðum, í stað þess að kanna málin ofan í kjölinn og tryggja að ekki sé lagt af stað í háskaför. Við verðum auðvitað að geta treyst stjórnvöldum landsins en miðað við það sem á undan er gengið þá er ekki laust við að efasemdirnar séu byrjaðar að naga mann því erfitt getur reynst að spá fyrir um hvað sé fram undan. Það versta er að ég er ekki viss um að ríkisstjórnin viti það heldur,“ skrifar Sigurður Páll Jónsson Miðflokki.

Það verður stormur á Alþingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: