- Advertisement -

Sprungan í stjórnarsamstarfinu: Með og á móti breyttri stjórnarskrá

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, er á móti: „Ég vildi spyrja hæstvirtan forsætisráðherra um forsetakaflann eða II. kafla stjórnarskrárinnar sem varðar forseta og æðstu handhöfn framkvæmdarvalds. Þá vildi ég kannski fyrst segja að ég hef ýmsar athugasemdir við þann kafla og útfærslu hans, að því marki að ég tel að þar sé verið að breyta ýmsu sem er engin þörf á að breyta en annað látið standa sem væri kannski ástæða til að taka til endurskoðunar. Eitt atriði sem ég vildi spyrja sérstaklega um á takmörkuðum tíma varðar aðferðina við forsetakjör, hvernig hún kemur til. Hún var ekki sett í samráðsgátt á sínum tíma, ekki send til Feneyjanefndar heldur kemur hún síðar inn. Ég velti fyrir mér: Hvaðan í veröldinni er þessi hugmynd tekin?“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, er með: „Hvaðan í veröldinni er þessi hugmynd komin? Það er rétt að hún var ekki í samráðsgáttinni. Hins vegar bárust þangað athugasemdir og við setjum auðvitað frumvörp í samráðsgátt til að fá athugasemdir. Bent var á að við hefðum ekki tekið afstöðu til þess í tillögunum að kjörinn forseti hefði meirihlutastuðning. Þá skoðaði ég sérstaklega niðurstöður rökræðukönnunarinnar, eins og ég nefndi áðan í ræðu minni, og í því samtali sem þar átti sér stað kom fram mjög vaxandi stuðningur við þessa aðferðafræði. Og hvaðan í veröldinni? Þetta er víða þekkt. Ég nefndi hér að forseti Írlands er einmitt kosinn með raðaðri kosningu. Því hefur verið haldið fram að það eigi ekki við þegar um tiltölulega valdalítinn forseta er að ræða en ég tel að þau rök eigi miklu betur við um tveggja umferða kerfið. En ég kem að þessu betur hér á eftir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: