- Advertisement -

Stálu voninni frá fólki sem lifir í eymd

Þeir rændu fólkið í landinu auðlindunum og komu peningunum fyrir í skattaskjólum.

Jón Gunnar Gylfason skrifar:

Það er með ólíkindum þegar fyrirtæki og stjórnendur þess verða uppvísir að spillingu og alþjóðlegum glæpum, standa eins og ráðvillt dýr og benda í allar áttir á sökudólga, þó svo öll gögn og rök bendi til að sökin sé þeirra, enda væri Þorsteinn Már og co löngu búnir að heimsækja Namibíu til að gera hreint fyrir sínum dyrum ef þetta væri uppspuni frá rótum.

Það er alveg klárt að þetta mál er og verður litið alvarlegum augum erlendis, DNB bankinn hefur rýrnað í verðmætum um tvöfalt eigið fé Samherja síðan rannsókn hófst. Samherji á sér ekki viðreisnarvon á mörkuðum erlendis og mun stórskaða íslenskan fiskiðnað í heild til framtíðar. Afleiðingarnar eru þegar farnar að sýna sig og nú þegar hafa fyrirtæki í Bretlandi hætt viðskiptum og önnur fylgja líklega á eftir, fyrirtækið er rúið trausti heima og erlendis. Það væri vænlegast fyrir þá sem hlut eiga að máli að taka ábyrgð á gjörðum sínum og játa brot sín því þetta mál verður ekki fallegra með tímanum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Íslensk stjórnvöld, þau einu í heiminum sem halda að þetta sé bara vondur draumur.

Hvor aðilinn er sekur? Sá er réttir fram peningana eða sá sem tekur við þeim? Við Íslendingar teljum okkur framar flestum Afríkuríkjum þegar kemur að spillingu og þar af leiðandi er sök okkar þyngri. Við hjálpuðum Namibíu að verða fiskveiðiþjóð og nú hefur íslenskt fyrirtæki gjörsamlega rústað því góða starfi, stuðlað að spillingu og stolið voninni af fólki sem lifir í algjörri eymd og átti aldrei neitt nema vonina.

Íslensk stjórnvöld, þau einu í heiminum sem halda að þetta sé bara vondur draumur, gera nákvæmlega ekkert, eins og oftast áður þegar vinir og vandamenn lenda “óvart” í að brjóta lög. Spurningin er hvort Íslandi sé stjórnað beint og óbeint af alþjóðlegum glæpamönnum? Þeir rændu fólkið í landinu auðlindunum og komu peningunum fyrir í skattaskjólum, þeir stálu bönkunum, hvar embættismenn, vinir og vandamenn urðu milljarðamæringar yfir nótt, svo stálu þeir heimilum landsmanna til að borga brúsann þegar bólan sprakk. Þeir sömu eru nú að undirbúa snúning, nú eða vafning númer tvö, þ.e. að ræna rafmagnsframleiðslunni af þjóðinni, hitaveituréttinum, bönkunum aftur og vatnsbúskapnum. Þá er bara eftir að einkavæða heilbrigðisþjónustu svo atvinnulausir, aldraðir, öryrkjar og allir sem eiga ekki peninga geti bara dáið drottni sínum án nokkurrar aðstoðar heima fyrir eða bara á götunni.

Það eru svo kjánarnir á hliðarlínunni sem halda þessu gangandi með því að kjósa og verja glæpina enn og aftur meðan meðaljóninn sem bjargaði bönkunum rétt dregur fram lífið. Þeir eru jafnsekir elítunni sem allt á, allt má og öllu stelur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: