- Advertisement -

Staurblindur á Landspítalanum

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Allir öryrkjar sem ég þekki vilja vinna. En störf sem hæfa eru vandfundin. Sumir vinna á vernduðum vinnustöðum en það hentar mörgum alls ekki og býðst heldur ekki.  Atvinnurekendur og fyrrverandi félagsmálaráðherra vildu koma á nýju kerfi og miða upphæð örorkubóta við starfsgetu en ekki örorkumat. Öryrkjabandalagið vildi ekki fallast á þetta kerfi því innleiðing þess mundi leiða til lækkunar næstum allra bóta.  Þáverandi félagsmálaráðherra greip því til hefndarráðstafana.  Frítekjumark öryrkja var lækkað, fjórðungur þess sem aldraðir fengu. Svona er þetta enn.

Í uppeldi okkar systkina var fátt talið fyrirlitlegra en að miklast af eigin ágæti. Vera streber. Þótt þetta kunni að hafa, að einhverju leyti, hindrað frama okkar höfum við öll haldið trúnni á þetta. Í samræmi við þessi grundvallarviðhorf sagði ég þegar ég var spurður af hverju mér hefði ekki auðnast frami í pólitík: Ég naut ekki trausts. Og: Ég hafði hvorki klíku né píku. Eftirsjá engin!

Seinast þegar ég lá á Landspítalanum var eiginlega illa komið fyrir mér. Ég hafði farið í augasteinsskipti sem misheppnuðust. Það var engum um að kenna, nema máttarvöldunum.  Eftir björgunaraðgerð var ég steinblindur. Átti reyndar von á að úr rættist. Hið fyrsta sem ég rak mig á var að hnappaborðið, til að kveikja ljós, hækka og lækka rúmið og kalla á aðstoð var ónothæft sjónskertum. Heyrnartól sem ég fékk til þess að hlusta á útvarp virkuðu ekki. Steinn færði mér útvarpstæki sem ég nota enn. Hann stillti tækið líka fyrir mig. Verst var að ég sá ekki til þess að komast a klósett.  Stofufélagi minn leiðbeindi mér svo ég gat þreifað mig þangað.  Fann skálina með þreifingu og gat bjargað mér eftir það. Nú átti ég að rölta um.  Þar fór í verra! Eftir endilöngum ganginum er handrið.  En alls staðar voru settar hindranir. Hreint lín og óhreint lín í vögnum. Kaffivagnar. Ónotaðir hjólastólar. Blóðþrýstingsmælar á hjólum. Þessu fékk ég breytt.  En bara á þessari deild. Átti að koma og predika a öðrum deildum en ekkert hefur orðið úr því.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: