- Advertisement -

Stjórnarskráin gildir einnig fyrir lægst launuðu, aldraðra og öryrkja

Það verður að leiðrétta þetta strax. Réttlætinu verður ekki frestað.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Það vakti mikla athygli, þegar heyrnarlaus stúlka, Snædís Hjartardóttir, vann mál gegn ríkinu, þar eð hún hafði ekki fengið lögbundna túlkaþjónustu. Menntamálaráðuneytið hafði neitað að greiða henni fyrir túlkaþjónustu,sem hún átti rétt á. Ráðuneytið bar því við, þegar synjað var um túlkaþjónustu, að fjármunir væru ekki til.

Mál var höfðað á þeim grundvelli, að samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar ætti heyrnarlausa stúlkan rétt á aðstoð ríkisins. En í umræddri grein stjórnarskrárinnar segir, að fatlaðir og aldraðir sem þurfi á aðstoð ríkisins að halda skuli fá hana. Þegar ríkið sagði fyrir héraðsdómi, að ekki hefði verið unnt að veita túlkaþjónustuna, þar eð peningar hefðu ekki verið til, sagði héraðsdómur, að það skipti ekki máli. Það væri stjórnarskrárvarinn réttur stúlkunnar að fá túlkaþjónustu. Þess vegna ætti hún að fá hana.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Gildir ekki það sama um lífeyri þeirra eldri borgara og öryrkja, sem eingöngu hafa tekjur frá almannatryggingum, ef sá lífeyrir dugar ekki fyrir framfærslukostnaði, lyfjum og lækniskostnaði? Jú,það tel ég. 76. grein stjórnarskrárinnar gildir um þessa aðila á sama hátt og hún gilti um heyrnarlausu stúlkuna.

Það liggur fyrir,  að lífeyrir að fjárhæð 252 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, sem einhleypir ellilífeyrisþegar fá frá TR, dugar ekki fyrir framangreindum útgjöldum.

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur upplýst, að algengt sé að einhverjir úr þessum hópi hafi samband við skrifstofu félagsins í lok mánaðarins og skýri frá því, að þeir eigi ekki fyrir lyfjum eða læknishjálp eða jafnvel ekki fyrir mat.

Þetta er mannréttindabrot og brot á stjórnarskránni að mínu mati og íslensku þjóðfélagi til skammar, að þetta skuli látið viðgangast. Þetta gerist þó ráðamenn segi, að allir hagvísar þjóðarbúsins séu hagstæðir og afgangur á fjárlögum ríkisins. Samkvæmt því virðast aldraðir og öryrkjar, sem eingöngu hafa tekjur frá TR, vera látnir sitja á hakanum.

Það er tímabært að breyta þessu. Ef Ísland vill teljast velferðarríki og gæta mannréttinda, getum við ekki lokað augunum fyrir þessu. Það verður að leiðrétta þetta strax. Réttlætinu verður ekki frestað.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: