- Advertisement -

Stjórnast af pólitískum kreddum

„Ég hef tekið eftir því að Viðreisn hefur tekið sér það hlutverk hér á Alþingi að vera sérstakir talsmenn einkaaðila í heilbrigðisþjónustu.“

„Ríkisstjórnin hefur ekki farið leynt með pólitíska stefnu sína þegar kemur að einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu. Það verður ekki túlkað á annan hátt en svo að beinlínis hafi verið skorið upp herör gegn hvers kyns einkaframkvæmd innan heilbrigðisgeirans á undanförnum mánuðum, og að því er virðist fyrst og fremst af einhverjum pólitískum kreddum,“ sagði Þorsteinn Víglundsson á þingi í dag.

„Það er hins vegar svo að þessi stefna ríkisstjórnarinnar hefur beinlínis leitt til þess að aðgerðum á þeim sviðum sem helst er talað um hér, eins og liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum, hefur beinlínis fækkað á 12 mánaða tímabili. Samkvæmt gögnum landlæknis, þeim nýjustu sem hægt er að finna, hefur þeim fækkað um 20%. Þá hvet ég hæstvirtan heilbrigðisráðherra til að kynna sér þau gögn betur. Á sama tíma hafa biðlistar lengst á um annan tug prósenta í þessum sömu aðgerðum og á sama tíma horfum við upp á að við erum að verja stórauknu fjármagni til heilbrigðiskerfisins.“

Þorsteinn spurði: „Það hlýtur að vera svo að það sé þjónusta við sjúklinga sem skipti öllu þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, ekki hver veitir þá þjónustu, að sjúklingar geti treyst því að þeir geti fengið góða og tímanlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu þegar þörf er á. Ég spyr hæstvirtan ráðherra, í ljósi þessara talna sem ráðherrann segist ekki kannast við en eru á heimasíðu landlæknis: Hvað hyggst hún gera?“

Svandís Svavarsdóttir svaraði: „Háttvirtur þingmaður veltir því síðan upp að það sé alveg sama, eins og hann orðar það, hver veiti þjónustuna, og þá á hann væntanlega við að það sé alveg sama hvort það séu opinberir aðilar eða einkaaðilar. Ég hef tekið eftir því að Viðreisn hefur tekið sér það hlutverk hér á Alþingi að vera sérstakir talsmenn einkaaðila í heilbrigðisþjónustu.“

Svandís sagðist síðar ætla að standa vörð um opinbera kerfið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: