- Advertisement -

Stjórnmálaflokkar eru ekki markaðsvara

Einhver verður að taka upp baráttuna þegar aðrir hafa lagt niður fánann.

Gunnar Smári skrifar:

Í tímaritaútgáfu er það þekkt að blöðin eldast með lesendum sínum. Þegar Alt for damerne koma út eftir stríð voru það ungar konur sem rifu blaðið í sig en það hefur nú í marga áratugi einkum verið lesið af eldri konum. Lesendurnir sveigðu blaðið að áhuga sínum og ritstjórnin eltist með lesendahópnum, það sem einu sinni var djarft og ögrandi blað, svona eins og þessi tegund blaða getur orðið, var orðið að íhaldssamri varðstöðu við viðhorf sem áttu sér kannski enga stoð lengur, tilheyrðu liðnum tímum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði með svipuðum hætti um flokkinn sinn fyrr í vetur, sagði að kjósendurnir hefðu breyst og flokkurinn með. Í afmælisávarpi sínu í gær talaði hún á svipuðum nótum; það sem þótt djarft á sokkabandsárum VG þykir nú sjálfsagt og eðlilegt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En er þetta ekki lýsing á flokki sem endurnýjast ekki?

En er þetta ekki lýsing á flokki sem endurnýjast ekki? Vandinn við tímarit á markaði er að þau eru á markaði, eru háð tekjustraum frá lesendum en ekki síður augum lesenda, sem blöðin svo selja auglýsendum. Blöð geta því illa róið á móti straumnum nema hætta á tekjufall, þess vegna láta þau sig flest fljóta að árósum með lesendum sínum.

En stjórnmálaflokkar eru ekki markaðsvara. Þeir eiga að vera lifandi hugmyndadeigla sem sífellt svarar breyttum aðstæðum. Í tímaritaheiminum gerist það, að eftir því sem vinsæl blöð eldast með lesendum sínum, skapast rými fyrir blöð sem höfða til yngri lesenda og nýrri hugmynda, eru með djarfari framsetningu á meira spennandi efni.

Pólitískir flokkar sem upplifa sig sem markaðsvöru á kjósendamarkaði, og sem leyfa sér að eldast með kjósendum sínum, skapa sambærilegt rými. Einhver verður að taka upp baráttuna þegar aðrir hafa lagt niður fánann. Þetta er gamalt vandamál. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: