- Advertisement -

Stóriðjan niðurgreiðir orku til annarra

Rio Tinto ætti að fá hagstæðari samning, gegn því að flytja meiri verkefni og atvinnu til Íslands.

Ragnar Önundarson skrifar:

Fyrir uþb. fjórum árum fengum við fyrirmæli að utan og ofan (frá ESA) um að taka „markaðsverð“ fyrir orkuna til stóriðju. Útbreiddur misskilningur er að átt hafi verið við evrópskt markaðsverð, svo var ekki, enda engin tenging við þann markað. Átt var við innlendan markað, sem var ekki til og er ekki til, því við látum stóriðjuna, sem kaupir 84% raforku landsins, niðurgreiða orku til annarra almennra nota, heimila og fyrirtækja, sem er ekki nema 16% af heildinni. Svona gerist þegar „bókabéusum“ er falið að framfylgja bókstaf laganna eins og bókstafstrú. Ef farið væri eftir vitleysunni frá ESA yrðum við að lækka verð til stóriðju og hækka til almennra nota.

Orka landsins er einn þriggja hagstæðra þátta sem gera búsetu hér á norðvesturhjaranum mögulega, fiskurinn í sjónum og náttúrufegurðin eru hinir tveir. Í augnablikinu er krísa. Loðnubrestur og veiruvá herja á sjávarútveg og ferðaþjónustu. Það vekur líka umhugsun að krafist er lægra orkuverðs til álversins í Straumsvík og önnur álver vakta málið á hliðarlínunni. Að hluta til er þessi vandi heimatilbúinn, við höfum byggt skýjaborgir um arðgreiðslur og þjóðarsjóð kringum Landsvirkjun. Í krísum nær flest fólk að átta sig. Nú áttum við okkur vonandi á hve mikilvæg og stöðug undirstaða þjóðarbúskaparins orkuvinnslan og stóriðjan er. Við eigum að minnast þeirra sem að þeirri stefnu stóðu með þakklæti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við þurfum að bjóða „möppudýrunum“ byrginn.

Í hálfa öld höfum við „parað saman“ virkjanaframkvæmdir og orkusölusamninga til stóriðju. Fjármögnun slíkra paraðra verkefna er kölluð „project finance“. Stórar erlendar fjármálastofnanir sækjast eftir slíkum viðskiptum. Ég kynntist þessu þegar göngin undir Hvalfjörð voru gerð, innlendir bankar fjármögnuðu verkið saman á framkvæmdatímanum, en svo tóku erlendar lánastofnanir við og innlendu lánin voru þar með gerð upp. Við eigum að halda áfram á sömu braut. Það er ekkert vit í öðru en að hreinasta og grænasta orkan leysi brennslu olíu og kola af hólmi, en þá stöndum við frammi fyrir því sem ,,bókabéusum” yfirsést: Flutningskostnaður til og frá landinu hlýtur að leiða til lægra orkuverðs hér en á meginlöndunum.

Við þurfum að bjóða „möppudýrunum“ byrginn. Gera fleiri samninga hagstæða kaupendum, sem greiða virkjanir niður á broti þess tíma sem þær endast. Það verður aðalávinningur okkar, auk stöðugleikans og atvinnunnar. Um leið og við föllumst á að hlífa hálendinu við frekari virkjunum hljótum við að fallast á að virkja meira í byggð. Neðri hluti Þjórsár blasir við og fleiri virkjanir í jökulvötnum í byggð. Þar er aflið, en ekki í bergvatnsám og með því að „drita niður“ vindmyllum hingað og þangað. Rio Tinto ætti að fá hagstæðari samning, gegn því að flytja meiri verkefni og atvinnu til Íslands.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: