- Advertisement -

Stormur í ræðustól Alþingis

Á þessu ástandi ber ráðherra ábyrgð og því spyr ég: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera?

Það var ekki logn á Alþingi í gær þegar Helga Vala Helgadóttir spurði Bjarna Benediktsson út í ábyrgð hans og afleiddu ástandi á Landspítalanum.

„Ég vil ræða ástandið á bráðamóttöku Landspítala við hæstvirtan fjármálaráðherra. Á þessu ástandi, herra forseti, ber hæstvirtur ráðherra ábyrgð og því spyr ég: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að bregðast við núna?“

Bjarni brosti ekki, hann svaraði fullum hálsi: „Ég verð að lýsa mikilli furðu á því hvernig háttvirtur þingmaður kemur hér og heimfærir ábyrgð af rekstri opinberra stofnana. Við erum með stjórnendur á stofnunum sem eru í samtali við fagráðuneyti.“ „Fjármálaráðuneytið er ekki þátttakandi í því samtali. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig háttvirtur þingmaður geti sagt hér í þingsal: Bráðadeild Landspítalans er á ábyrgð fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytis.“

Þú gætir haft áhuga á þessum


Háttvirtur þingmaður kemur aftan úr einhverri forneskju þegar hún færir fram þau rök í þingsal að fjármálaráðherrann sé með peningavaldið.

Helga Vala steig aftur í pontu: „Þegar hæstvirtur ráðherra leyfir sér að tala eins og hann beri enga ábyrgð á þessu og vísar í lög um opinber fjármál, tölum þá um lög um opinber fjármál. Hvaða vit er í því að láta fólk vera fast á bráðamóttökunni þar sem sólarhringurinn kostar 230.000 kr. á sama tíma og það kostar 70.000 kr. á öðrum deildum? Tölum um endilega um ábyrgð, hæstvirtur ráðherra, sem ekki vill gera samninga við hjúkrunarfræðinga þannig að núna er verið að taka vaktaálag af hjúkrunarfræðingum sem gerir að verkum að það verður fráflæðisvandi, sem gerir að verkum að bráðamóttaka Landspítala lokast. Þetta er á ábyrgð ykkar, stjórnvalda.“

Nú var Bjarna nóg boðið: „Háttvirtur þingmaður kemur aftan úr einhverri forneskju þegar hún færir fram þau rök í þingsal að fjármálaráðherrann sé með peningavaldið. Það er Alþingi sem hefur fjárstjórnarvaldið, það er Alþingi sem hefur ákveðið hvaða fjárveitingar verða veittar til Landspítalans.“

„Það að koma hér upp og vísa bara í fjármálaráðuneytið þegar það er rekstrarvandi í einstökum stofnunum er ódýr pólitík. Þetta er misheppnuð pólitík og þetta er á skjön við allt sem við höfum komið okkur saman um í útskrifuðum lögum um það hvernig fjárstjórnarvaldið er. Fjárstjórnarvaldið er á Alþingi. Alþingi hefur kveðið upp úr með það hvaða fjárheimildir eru til þessarar stofnunar til þessa rekstrar og fagráðuneytin verða að koma að málum. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Ábyrgð fjármálaráðuneytisins er að taka þátt í því samtali.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: