- Advertisement -

Strætó rekinn á yfirdrætti

Rekstrarvandi Strætós er sýnilega verulegur og hafa eigendurnir gengist í ábyrgð fyrir yfirdráttarheimild upp á 300 milljónir króna. „Markmið heimildarinnar er að tryggja fjárstreymi félagsins út árið 2021,“ segir í bókun meirihlutans í borginni.

„Strætó bs. er rekinn með halla og getur ekki endurnýjað strætisvagna miðað við eðlilega endurnýjunarþörf. Engar líkur eru á að Strætó bs. geti greitt upp þessa yfirdráttarheimild í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá er vaxtakostnaður Strætó á yfirdrætti mun hærri en fjármagnskostnaður sveitarfélaganna. Hreinlegast væri að horfast í augu við rekstrarvanda Strætó og auka bein fjárframlög eigenda frekar en að reka fyrirtækið á yfirdrætti. Fullt tilefni er til að stjórnendur Strætó komi á fund borgarráðs til að ræða rekstur félagsins,“ bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

„Það er fullkomlega eðlilegt að rekstur almenningssamgangna gangi illa í heimsfaraldri þar sem takmarkanir eru settar á fjölda fólks í tilteknu rými. Þá hefur Strætó staðið sig með prýði við að bregðast við erfiðum aðstæðum,“ segir meirihlutinn.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalistaflokks óttast og bókaði:

Rekstur Strætó er í molum.

„Það er mikilvægt að þessi staða verði ekki nýtt til frekari útvistunar. Opinbera grunnþjónustu ber að byggja upp og efla. Erfið staða er hjá Strætó bs. og fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að þjónustunni verði ekki komið í hendur einkaaðila, það er ekki lausn.“

Vigdís Hauksdóttir Miðflokki er herská: „Rekstrarstaða Strætó er í molum. Nú þegar hafa forstjóri og stjórn félagsins óskað eftir 300 milljóna yfirdrætti með ábyrgð eigandans. Reykjavíkurborg er langstærsti eigandinn að félaginu. Fram kemur í fundargerð að hætta er á að rekstrar- og fjárfestingaráætlun ársins gangi ekki eftir. Að auki áætlar Strætó að fara í 400 milljóna lántöku á árinu 2021. Farþegatekjur Strætó lækkuðu mikið árið 2020 og sama má segja um 2021.“ 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: