- Advertisement -

„Stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum“

Sanna Magdalena skrifar:

Það er alltaf gott þegar fólk biðst afsökunar og undirstrikar að ummælin hafi verið vanhugsuð og sögð í hugsunarleysi. Við getum öll klúðrað málunum og sagt eitthvað sem við sjáum eftir að hafa sagt. Svona orðanotkun myndast þó ekki í tómarúmi og ég á erfitt með að sjá hvernig ummælin „Þetta er það sem ég er alltaf að segja, það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum“ byggir á hugsunarleysi. Er ég þá að skilja rétt að maður þurfi fyrst að hugsa hvort að þessi orð séu viðeigandi áður en maður lætur þau falla? Ég hélt það væri frekar borðleggjandi að svona hluti segði maður ekki. Þegar þetta er eitthvað sem kemur út úr munni einstaklings þegar hann lýsir fótboltaleik, endurspeglar það þá ekki hvernig sumir vegna forréttindastöðu sinnar þurfa ekki að hugsa og segja bara það sem þeim dettur í hug?

Fyrir mér endurspegla þessi orð dýpra samfélagslegt vandamál sem við þurfum að bregðast við, veruleika sem byggir á kynþáttahyggju og kynþáttafordómum; aldagamalli hugmyndafræði sem hefur mótað það hvernig við hugsum um fólk sem við teljum vera frábrugðin okkur. Hugmyndin um ólíka kynþætti byggir á því að það sé einhvern veginn hægt að skipta mannkyninu upp í ólíka kynþætti sem séu líkamlega og andlega ólíkir, þar sem svartir einstaklingar sem teljist óæðri eru neðst í stigveldinu og var líkt við dýr eða villimenn sem voru talin minna mennsk en hvítt fólk.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það væri frábært ef að fólk sem segir svona hluti og sér eftir þeim myndi ganga skrefinu lengra og skoða rót vandans, ef það væri til í að kynna sér birtingarmyndir kynþáttafordóma og hvernig það geti lagt sitt á vogarskálarnar til að vinna gegn kynþáttafordómum. Það væri líka frábært ef að stjórn knattspyrnudeildar Hauka myndi ganga skrefinu lengra í yfirlýsingu sinni og segja að auki við að hamra þessi ummæli, muni þau gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að tryggja að svona eigi sér ekki stað aftur, með því til dæmis að sporna gegn kynþáttafordómum á öllum sviðum sem það geti.

Ég er bara búin að lesa þessa frétt eftir að hún var uppfærð í ljósi yfirlýsingar knattspyrnufélagsins og veit því ekki hvort að umræddir aðilar hafi tjáð sig frekar um þessi mál á öðrum vettvangi.

Til að uppræta skaðlegar staðalímyndir er mikilvægt að skoða hvaðan þær koma. Í þessu tilfelli tel ég liggja í augum uppi að kynþáttahugmyndafræðin móti hvernig við sjáum og tölum um fólk sem við teljum líta öðruvísi út en við, þá er mikilvægt að ræða það til að vinna gegn svo skaðlegri hugmyndafræði. Samfélagið þarf að ræða saman til að vinna gegn fordómum í stað þess að afgreiða bara svona ummæli einungis sem heimskuleg. Skoðum stærra samhengið og búum til betra samfélag.




Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: