- Advertisement -

Sýnilegt að komin er ný ríkisstjórn

„Áralangt verkleysi fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG í málefnum barna með fjölþættan vanda leiddi til neyðarástands í málaflokknum. Í síðustu viku rofaði þó aðeins til þegar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og Samband íslenskra sveitarfélaga, undir forystu þáverandi formanns, Heiðu Bjargar Hilmarsdóttur borgarstjóra, skrifuðu undir samkomulag um málaflokkinn. Samkomulagið sýnir svo ekki verður um villst að ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórn landsins, ríkisstjórn sem ætlar sér að láta verkin tala, sem við sjáum líka á fréttum dagsins um breytingar á lögum um veiðigjöld,“ Árni Rúnar Þorvaldsson Samfylkingu, á Alþingi.

„Sveitarfélögin hafa lengi kallað eftir úrbótum og skýrari verkefna- og ábyrgðarskiptingu í málaflokknum án þess að fá nokkurn hljómgrunn hjá fyrri ríkisstjórn. Málin festust einmitt í þeim farvegi sem erindislaus ríkisstjórn helst óskar sér, karpi milli ríkis og sveitarfélaga. Það er fullkomlega óásættanlegt því að hér er um að ræða börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu sem ekki mega við neinni óvissu. Karp um kostnað og verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er nefnilega ekki stóra málið í þessu samhengi. Stærstu fórnarlömbin eru ekki fjárhagsáætlanir eða ársreikningar sveitarfélaganna heldur börnin og ungmennin sem lífsnauðsynlega þurfa á þessari þjónustu að halda. Þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um það að leysa málin þannig að hægt sé að styðja við þau og fjölskyldur þeirra af festu og öryggi. Forsenda þess að það gangi eftir er traust samstarf ríkis og sveitarfélaga. Samkomulagið sem undirritað var í síðustu viku, auk samkomulagsins um uppbyggingu hjúkrunarheimila, sýnir líka að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, ólíkt fyrri ríkisstjórn, er tilbúin í raunverulegar viðræður við sveitarfélögin í landinu um sanngjarna og eðlilega tekju- og verkaskiptingu vegna mikilvægra verkefna sem hið opinbera sinnir.“

Árni Rúnar endaði ræðu sína svona:

„Það er því ánægjulegt að sjá að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tekur mál sem snúa að börnum og ungmennum traustum tökum strax á upphafsmánuðum á starfstíma sínum. Það undirstrikar enn á ný að hér er tekin við ríkisstjórn sem mun láta verkin tala þegar kemur að velferð barna og ungmenna. Það eru góðar fréttir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: