- Advertisement -

„Þá bið ég bara guð að hjálpa okkur“

Við þurfum virkilega að taka okkur á.

Guðmundur Ingi Kristinsson:
Búið er að skera niður allt sem hægt er að skera niður.

„Við vitum líka að búið er að skera inn að beini hjá hjúkrunarstofnunum undanfarin ár,“ sagði baráttumaðurinn á Alþingi, Guðmundur Ingi Kristinsson, þegar hann talaði fyrir tillögu sinni um búsetuöryggi í dvalar og hjúkrunarrýmum.

„Búið er að skera niður allt sem hægt er að skera niður og samningar hafa gengið mjög illa við þá þjónustuaðila sem eiga að veita slíka þjónustu. Þarna þurfum við aldeilis að taka til hendinni og reyna að sjá til þess að sú þjónusta sé í boði á þann hátt að hún sé mannsæmandi fyrir alla og að ekki sé gengið svo hart fram að það þurfi að skera allt niður við trog, liggur mér við að segja, þannig að ekkert sé orðið eftir nema hrein og klár umönnun kvölds og morgna,“ sagði hann.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í langri ræðu kom Guðmundur Ingi víða við. Á einum stað sagði hann:

„Við verðum líka að átta okkur á því að það er einn hópur þarna sem er í mjög erfiðri aðstöðu og þarf að bregðast hratt og vel við. Það eru þeir sem eru með heilabilun. Þar þurfum við að taka verulega á. Ef þessi þingsályktunartillaga yrði tekin til gagngerrar skoðunar og henni fylgt eftir er ég viss um að mikil bót yrði á. Þarna þarf líka, eins og ég segi, að taka tillit til og taka virkilega á þeirri þörf sem tengist alzheimer eða öðrum sjúkdómum sem eru gífurlega erfiðir og valda einstaklingum og fjölskyldum miklum erfiðleikum. Við þurfum virkilega að taka okkur á í því.“

Gott er að enda á þessu: „Við vitum líka að það er þyngra en tárum taki þegar verið er að aðskilja hjón í þessum tilfellum. Það sem er enn verra og er eiginlega óboðlegt er þegar einstaklingur fer á sjúkrahús og í staðinn fyrir að honum sé boðin aðstoð við að komast inn á hjúkrunarheimili eða samsvarandi stofnun er hann sendur heim þar sem makinn þarf að taka við viðkomandi einstaklingi og þjónusta hann, makinn sem oft er í svipaðri aðstöðu og á jafnvel ekki möguleika á því að taka við veikum maka sínum til þess að þjónusta hann. Þar af leiðandi erum við að búa til keðjuverkandi áhrif sem veldur því að í mörgum tilfellum bugast sá sem á að taka við veikum maka sínum. Við vitum að um þetta eru mörg dæmi og við eigum að sjá til þess að aldraðir fái, þeir eiga rétt á því, að lifa áhyggjulausu ævikvöldi. Þess vegna leggjum við þessa þingsályktunartillögu fram og vonum að hún beri árangur. Eitthvað verðum við að gera. Ef við ætlum ekki að gera neitt í dag, eða eins fljótt og auðið er, þá bið ég bara guð að hjálpa okkur. Öldruðum fjölgar hratt. Að vísu hefur verið talað um að auka heimilisaðstoð og heimahjúkrun, en því miður hefur það ekki skilað sér, eins og við vitum. Það vantar að ganga vel frá þeim málum og sjá til þess að þau virki. Á meðan svo er verðum við að grípa til þess ráðs að byrja strax að sjá til þess að nóg sé af hjúkrunarrýmum fyrir þá sem eru að eldast. Ef við gerum það ekki erum við í miklum vanda.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: