- Advertisement -

Það er gott að búa í Vesturbænum

Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifaði:

Það er gott að búa í 107 Reykjavík, Vesturbænum sunnan Hringbrautar. Um það eru allir sem til þekkja sammála.

Skipulagið og samfélagið í 107 er frábært og því á að breyta sem minnst.

Melaskóli, Grandaskóli, Hagaskóli, allir leikskólarnir, Neskirkja, Melabúðin, Kaffi Vest, KR, Vesturbæjarlaug og miðborgin, allt í göngufæri. Allt þetta skapar umhverfi sem samfélagið þrífst vel í. Íbúar borgarhlutans ganga meira en íbúar flestra annarra borgarhluta.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á þeim 6000 fermetrum sem þar eru, er hugmyndin að byggja allt að 15000 fermetra stórhýsi.

Að ganga um götur borgarhluta 107, fara í hverfisbúðina, hverfisknæpuna er skemmtileg upplifun sem stuðlar að meiri samskiptum íbúa hverfisins en ég hef kynnst annars staðar.

Nú stendur fyrir dyrum að gera hverfaskipulag fyrir borgarhlutann. Hverfaskipulag gengur út á að gera hverfið sjálfbært og vistvænna, minnka einkabílaumferð og stuðla að auknum lífsgæðum og síðast en ekki síst að rækta séreinkenni borgarhlutans og bæta gæði hans. Hverfaskipulagið á ekki að breyta þessu frábæra hverfi heldur gera meira af því sama og bæta það.

Hverfið einkennist af frekar litlum sambýlishúsum með bæði litlum og stórum íbúðum og sérbýlum af margvíslegum stærðum og gerðum.

Hverfaskipulagið mun líklega komast að þeirri niðurstöðu að það vanti fleiri lítil sérbýli auk margskonar þjónustu eins og heilsugæslu, apótek, vínbúð, lágvöruverslun, rakara, tannlækna, bókabúð, duftkirkjugarð, hverfisbókasafn og fl. Hverfaskipulagið mun líklega einnig halda áfram þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár og gera það enn gönguvænna og mun líklega styðja breytingu á Hagatorgi í Hagagarð með fjölbreyttri starfsemi líkt og Klambratún.

Ef marka má fjölmiðla á að skemma 107 Reykjavík með gríðarlegri uppbyggingu á bensínstöðvarreitnum á Ægisíðu. Á þeim 6000 fermetrum sem þar eru, er hugmyndin að byggja allt að 15000 fermetra stórhýsi. Það er nýtingarhlutfall (NF) upp á 2,5. Til samanburðar eru húsin í grenndinni með nýtingu upp á um 0,4. Stóra KR blokkin á horni Nesvegar og Kaplaskjólsveg er með nýtingu sem, er um 0,85 sem er um þriðjungur af fyrirhuguðu byggingarmagni á bensínstöðvarlóðinni og þykir mörgum nýtingin þar í algeru hámarki.

Það er gott að búa í Reykjavík 107 og það má ekki skemma þann dásamlega borgarhluta. Það er best að láta borgarhlutann að mestu í friði fyrir skipulaginu. Við Vesturbæingar þurfum að vera virkir í umræðu um skipulagsmál í aðdraganda hverfaskipulagsins og við verðum að treysta starfsmönnum borgarskipulagsins og borgarfulltrúum til þess að fara vel með umboð sitt og veita fjáraflamönnum viðeigandi aðhald, hverfinu og íbúum þess til heilla.

Í öllu falli verður að hætta við þessar skipulagsáætlanir á bensínstöðvarreitnum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: