- Advertisement -

Þaggað niður í umræðunni

Stjórnvöld hafa ekki markað neina stefnu í málefnum eldri borgara.

Jón Örn Marinósson skrifar:

Ekki var það uppörvandi að hlusta á svonefndan „borgarafund“ um málefni eldri borgara í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson virtust greinilega staðráðin í að beina talinu að því hróplega ranglæti sem felst í allt of lágu frítekjumarki, tekjutengingum og óhóflegum skerðingum á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu, ranglæti sem meirihluti eldri borgara má búa við (allt 300.000 króna fólkið), en stjórnendur þáttarins nánast þögguðu niður í öllu slíku tali. Fulltrúi lífeyrissjóðanna, sem hefur áður tekið undir gagnrýni á skerðingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, notaði tíma sinn til að segja okkur að við hefðum „besta lífeyrissjóðakerfi í heimi“. Var auðheyrt að stjórnendum þáttarins þóttu það góð tíðindi og þeir hefðu engar áhyggjur af að næsta efnahagskreppa eða vafasamar áhættufjárfestingar gætu dregið svo um munaði úr greiðslugetu sjóðanna.

Rauði þráðurinn í umræðunni á þessum „borgarafundi“ var hins vegar hvað það kostaði óskaplega mikla peninga fyrir íslenskt samfélag að burðast með allan þennan hóp af eldri borgurum sem í ofanálag færi sífellt stækkandi. Fór svo drjúgur tími „borgarafundarins“ í að ræða þá hugmynd að spara allt að 10 milljarða á ári í heimaþjónustu og við rekstur hjúkrunarheimila með því að mér skildist að láta drjúgar fjárhæðir frá ríki og sveitarfélögum renna til Janusar heilsueflingar og leiða í lög leikfimiskyldu fólks, eldra en 67 ára. Ráðherrann, sem er með málefni eldri borgara á borðinu hjá sér, sló svo botninn í „borgarafundinn“ með vægast sagt loðnu ávarpi enda ekki kosningar fyrr en árið 2021. Niðurstaða „borgarafundarins“: Stjórnvöld hafa ekki markað neina stefnu í málefnum eldri borgara, hinir og þessir eru hver í sínu horni að liðsinna eldri borgurum og þá einkum lasburða fólki, stjórnvöld og stjórnmálamenn í öllum flokkum vita hvar úrbóta er þörf en vilja draga það í lengstu lög að gera eitthvað af því að það kostar svo mikla peninga.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: