- Advertisement -

Þegar barn er ekki barn og bjór ekki bjór

„Samkvæmt lögum er ekki um bjór að ræða.“

Hann er aldeilis rökfastur forseti Golfsambandsins. Nýverið var haldið golfmót sem bjórframleiðandi hafði keypt sér til auglýsinga. Eflaust til að auka bjórsöluna, auka drykkjuna.

Foreldrar fundu að þessu. Forsetinn steig fram á sviðið og sagði bjórmótið ekki fyrir börn. „Mótið er ekki ætlað börnum og unglingum, þetta er fullorðinsmót. Ungmennum er ekki bönnuð þátttaka í mótinu en auglýsingum er ekki beint að þeim,“ segir forsetinn í Fréttablaðinu.

Það er bara svona. Auglýsingunum var sem sagt ekki beint gegn ungmennum. Máttu þau ekki horfa á þær, sem voru um allan völlinn? Endemis rugl er þetta.  Forsetinn verður að gera betur. Einkum þegar staðreyndin er sú að ungmenni sigruðu bæði í karla og kvennaflokki. Sextán ára í karlaflokki og átján ára í kvennaflokki. Auðvitað voru ungmenni skotmark bjórbruggarans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fréttablaðið segir að á heimasíðu Golfsambandsins megi sjá ljósmynd af sigurvegurunum með blaktandi bjórfána baksýn. Á fánanum standa slagorðin „Okkar tími – okkar bjór“.

Forsetanum finnst ekkert athugavert við að auglýsa bjór á íþróttamóti þar sem börn eru þátttakendur eða að taka mynd af ungmennunum við  bjórfánann.

„Þau eru sigurvegarar í mótinu og eðlilegt er að tekin sé mynd af þeim með samstarfsaðilann í baksýn. Uppfylli samstarfsaðilinn skilyrðin sem lögin setja um merkingar í slíkum auglýsingum þá sé ég ekkert athugavert við það. Samkvæmt lögum er ekki um bjór að ræða,“ sagði hinn mælski forseti golfara.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: