- Advertisement -

Þessi afdankaði kaldastríðsagent

Skyldi Gulli litli bjóða Pence upp á White Russian í Höfða?

Halldór Árni Sveinsson skrifaði þessa grein, síðdegis í gær:

„Heitt og kalt.

Mér er til efs að meira óspennandi manneskja hafi nokkurn tímann komið í opinbera heimsókn til Íslands en þessi Pence-garmur, sem ætlar að teppa allar stofnbrautir Reykjavíkur á morgun. Að Piu Kærsgaard meðtalinni, og er þá langt til jafnað. Og með svona lágkúrulega og aumkunarverða sýn á samtíma sinn. Aumingjans maðurinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fóru millurnar 360 sem ríkisstjórnin færði af fjárlögum og átti að fara í þróunaraðstoð til fátækustu ríkja heims í þessar gatnalokanir og hersýningu í Höfða?

Ekki vantar nú fyrirganginn og viðbúnaðinn. Heilu risaherþoturnar mættar með fullfermi af vígtólum. Gulli litli generáll er svo spenntur og uppveðraður, að ég er mest hræddur um að strákurinn sofi ekkert í nótt fyrir spenningi. Hvað skyldi nú þessi fordild og fyrirhöfn öll kosta ríkissjóð? Fóru millurnar 360 sem ríkisstjórnin færði af fjárlögum og átti að fara í þróunaraðstoð til fátækustu ríkja heims í þessar gatnalokanir og hersýningu í Höfða? Eða fóru þær í beint belginn á verktakastóðinu á „Litlu jólunum“ á Miðnesheiði, þegar Gulli og kó kynntu næstu útboð í hermanginu um daginn? Var ekki hægt að spjalla við þetta Pence-undur á Skype bara? Einfalt og ódýrt, en auðvitað vitasmekklaust, eins og allt æði hans og málflutningur.

Horfði á Kastljós kvöldsins og varð aðeins vísari. Ekki beinlínis um hver raunverulegur tilgangur þessarar undarlegu heimsóknar er, en verð að hrósa Birni Bjarna hvað hann er vel að sér í herstyrk Bandaríkjamanna og magni og ástandi vígtóla flug- og sjóhers þeirra (þó ég skilji nú hreint ekki hvernig það ætti að gagnast herlausri þjóð, sem þykist vilja standa utan við þennan belging stórveldanna).

Því það er einhvern veginn svo glórulaust geggjað þegar maður hugsar um það akkúrat á þessari stundu, þegar stærsti og hættulegasti fellibylur samtímans dynur á Austurströnd Bandaríkjanna, þá kemur þessi afdankaði kaldastríðsagent – sem nota bene trúir ekki á náttúruhamfarir af mannavöldum – hingað á klakann til að blása lífi í grýlur og forynjur Kalda stríðsins, sem leið undir lok í samkomuhúsinu fallega við Sæbrautina fyrir 33 árum.

Skyldi Gulli litli bjóða Pence upp á White Russian í Höfða á morgun?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: