- Advertisement -

Þetta er eignalaus stúdentsræfill!

Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:

Mikill höfðingi hann Jón bóndi. Gefur manni í nefið bæði á undan og eftir, sagði kona á Suðurlandi.

Einn af vinum og spilafélögum afa míns snemma á síðustu öld var Þorkell Blandon. Um 1930 veiktist Þorkell alvarlega af sjúkdómi sem legið hafði í láginni lengi. Hann var lagður á spítala og átti þaðan aldrei afturkvæmt  þótt hann lifði í áratugi eftir það.  Þorkell átti heima í Þingholtsstræti 13, sem tengdafaðir hans Þorsteinn Guðmundsson hafði átt áður. Ég þekkti þetta hús talsvert, hafði skoðað það að utan og kynnt mér sögu þess. Enginn bjó í húsinu sem var í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki sá ég nein merki þess að útigangsmenn hefðu fundið sér samastað þarna en húsið bar augljós merki langvarandi vanhirðu eigandans, Reykjavíkurborgar. Ég frétti, líklega hjá Páli Líndal, að selja ætti þetta hús. Ég gekk því á fund Gunnlaugs Péturssonar en honum hafði verið falið að sjá um söluna. Gunnlaugur tók mér vel og kvaðst mundu láta mig vita þegar þar að kæmi. En brátt barst mér vitneskja um að ákveðið hefði verið að selja húsið án útboðs, borgarstarfsmanni. Ég hafði hraðar hendur. Samdi bréf til borgarráðs og náði mér ma í vottorð Harðar Ágústssonar um að ég vissi eitthvað um gömul hús. Ég hafði setið við fótskör Harðar og ma fylgt honum við húsaskoðun. Málið var tekið fyrir í borgarráði og ákveðið að auglýsa eftir tilboðum í það. Hvorki ég né borgarstarfsmaðurinn urðum hlutskarpastir. En orðum Gunnlaugs Péturssonar um mig og af hverju hann gekk á bak orða sinna hef ég aldrei gleymt: Þetta er eignalaus stúdentsræfill!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: