„…að hvert einasta mál sem við teljum mikilvægt að fari í gegnum þetta löggjafarþing, það fer þangað, ekki á átta dögum, kannski 80 dögum…“
Inga Sæland.
Ingu Sæland var ekki skemmt þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðu og töluðu undir liðnum fundarstjórn forseta. Inga vill þess vegna að sumarfrí þingmanna hefjst seint og verði stytt svo um munar.
„Það er sannarlega ekki sama og skrifað að það séu eftir átta dagar af þessu þingi þó svo að dagskráin segi til um það núna, enda er alveg með ólíkindum hvernig hver háttvirtur þingmaður á fætur öðrum kemur hér og stígur upp í ræðustól Alþingis eins og hann hafi aldrei nokkurn tíma komið inn á Alþingi Íslendinga áður. En ég get alveg glatt ykkur öll með því að hvert einasta mál sem við teljum mikilvægt að fari í gegnum þetta löggjafarþing, það fer þangað, ekki á átta dögum, kannski 80 dögum, ég veit ekki hversu mörgum dögum. En það er gleðilegt að heyra að háttvirtir þingmenn eru algerlega tilbúnir í það að vera með okkur hér í sumar til að vinna að málunum. En ef háttvirt stjórnarandstaða telur það til sóma að tefja í rauninni lýðræðislega afgreiðslu mála hér á Alþingi Íslendinga, eins og hér hefur verið viðhaft, jafnvel mál sem öll stjórnarandstaðan er einhuga um — fríverslunarsamning við Taíland, hvað þá annað — að geta eytt þar sex, átta klukkustundum, þetta er lítilsvirðandi framganga gagnvart þjóðinni allri, lítilsvirðandi, og það í 1. umræðu um málin. Þetta er einstakt, fordæmalaust.“