- Advertisement -

ÞIÐ GETIÐ FENGIÐ TVENNT AF ÞRENNU, ALDREI ALLT: ALÞJÓÐAVÆÐINGU, FULLVELDI, LÝÐRÆÐI

Hver er stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart þessari innbyggðu togstreitu okkar tíma? Hver er stefna einstakra stjórnmálaflokka?

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar:

Hagfræðingurinn Dani Rodrik hefur haldið því fram lengi að alþjóðavæðing á ofsahraða muni leysa upp stjórnmálakerfi Vesturlanda vegna þess að þrennt getur aldrei farið saman: 1. Ofur-alþjóðavæðing 2. Fullveldi ríkisvalds 3. Lýðræði. Þið getið haft eitt af þessu eða tvennt en aldrei þrennt. Átök stjórnmálanna í dag; vaxandi andstaða við Evrópusambandið, upplausn stjórnmálaflokka eftirstríðsáranna, uppgangur þjóðernishyggju, vaxandi vantraust gagnvart lýðræðislegum stofnunum svo dæmi séu tekin; má rekja til the globalisation trilemma, sem Rodrik kallar svo.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftirstríðsárin voru andsvar við vandanum sem alþjóðavæðingin um og eftir aldamót hafði valdið. Dregið var úr alþjóðavæðingu og hún tamin með takmörkunum á fjármagnsflutningum milli landa; alþjóðasamvinna byggðist upp innan stofnana þar sem ríkin voru grunneining og í gegnum tollasamninga. Þetta er Bretton Woods-tímabil fjármálaheimsins, gullfótur og gjaldeyrishöft, takmarkandi kerfi en þó ekki svo að eftirstríðsárin voru mikið hagvaxtartímabil á Vesturlöndum og líka tímabil þar sem lýðræðiskerfið virtist virka; að ríkin væru flest að stefna í átt til almennrar velferðar, öryggis, jafnréttar og jöfnuðar. Eftirstríðsárin byggðu á ás milli 2. Fullveldis og 3. Lýðræðis en fórnuðu 1. Ofur-alþjóðavæðingu.

Eftir afnám Bretton Woods og verðbólgu og samdrátt í þjóðarframleiðslu á áttunda áratugnum var ofur-alþjóðavæðingu beitt á vanda ríkjanna. Alþjóðleg samkeppni vinnuafls dró úr valdi verkalýðsfélaga (og dró þar með úr lýðræðislegri virkni innan ríkjanna) og stór alþjóðleg fyrirtæki urðu grunneiningar hinnar nýju alþjóðavæðingar; alþjóðlegar skuldbindingar snerust um að tryggja rétt fyrirttækjanna gegn ríkisvaldinu og þar með hinum lýðræðislega vettvangi.

Evrópusambandið er svar við þessu ástandi. Hugmyndin á bak við þróun þess í yfirþjóðlegt vald yfir ríkisvaldi einstakra ríkja byggði á trú á að hægt væri að hafa 1. Ofur-alþjóðavæðingu og 3. Lýðræði með því að fórna 2. Fullveldi ríkja. Mögulega var þetta mögulegt, en framkvæmdin virðist hafa unnið gegn markmiðunum, sérstaklega eftir Hrun. Áherslan hefur öll verið á 1. Ofur-alþjóðavæðingu, hún hefur ætt áfram án þess að búið væri að byggja lýðræðislegan yfirþjóðlegan vettvang (3. Lýðræði) til að tryggja að alþjóðavæðingin þjónaði almenningi. Veiking hins lýðræðislegra valds og veiking fullveldis ríkisvaldsins í Evrópu hefur kallað á harða andstöðu við Evrópusambandið sem yfirþjóðlegan lýðræðislegan vettvang og vandséð er að sambandið muni ná vopnum sínum. Líklegra er að það bakki á næstu áratugum, gefi lýðræðislegum vettvangi (3. Lýðræði) innan ríkjanna (2. Fullveldi) meira svigrúm um stefnumörkun og viðbrögð við afleiðingum 1. Ofur-alþjóðavæðingar. Samkvæmt Rodrik er slík málamiðlun milli þessara þriggja þátta dæmd til að mistakast; við megum velja tvennt en verðum alltaf af tjóðra það þriðja.

Kínversk stjórnvöld hafa valið sína leið og Kína blómstrar sem vaxandi stórveldi innan 1. Ofur-alþjóðavæðingar. Kína er 2. Fullvalda innan 1. Ofur-alþjóðavæðingar vegna þess að það fórnar 3. Lýðræðinu.
Trump, Erdogan, Pútín og aðrir slíkir leita leiða út úr trilemmunni hans Rodrik með því að draga úr 3. Lýðræði (Erdogan og Pútín, og Trump að nokkru leyti), með því að draga úr 1. Ofur-alþjóðavæðingu (Trump blæs til viðskiptastríðs í von um að draga úr neikvæðum afleiðingum alþjóðavæðingar) en allir vilja þeir efla 2. Fullveldi ríkisvaldsins. Pútín og Erdogan eru meira og minna á leið Kína, en hafa náttúrlega ekki með sama efnahagslega styrk. Trump er meira út og suður, gerir út á ýmsar afleiðingar trilemmunnar í von um að slá í gegn.

En hver er stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart þessari innbyggðu togstreitu okkar tíma? Hver er stefna einstakra stjórnmálaflokka? Hver ætti stefnan að vera?

Er mögulegt að það takist að drepa lýðræðið innan ríkjanna og endurreisa það nógu fljótt innan alþjóðlegra stofnana (sem hingað til hafa verið enn fjarri almenningi en hinn hrörnandi lýðræðisvettvangur ríkjanna)? Er mögulegt að bakka aftur fyrir nýfrjálshyggju, aftur í Bretton Woods-kerfi sem byggir á alþjóðlegir samvinnu ríkja en heldur aftur af fjármagnsflutningum og valdi alþjóðlegra fyrirtækja? Er lausnin einhver allt önnur; ekki fasismi (Kína, Pútín og gælur Trump), ekki alþjóðaríki (draumurinn um ESB), ekki taumlaus alþjóðavæðing stórfyrirtækja sem ryður burt fullveldi ríkja og lýðræði almennings (nútíminn), ekki afturhvarf til eftirstríðsáranna (Bretton Woods) heldur eitthvað allt annað? Og hvað þá?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: