- Advertisement -

Þingfréttir: Atgervisflóttinn skaðar okkur öll

„Á sama tíma og við erum að reyna að tryggja hér stöðugleika er ljóst að við þurfum að vinna niður hátt í 700 milljarða uppsafnaða innviðaskuld sem ríkisstjórnin fékk í heimanmund frá fyrri ríkisstjórnum.“

Ingvar Þóroddsson.

„Eins og svo oft áður erum við að horfast í augu við bæði innlendar og erlendar áskoranir. Vaxandi óvissa kallar jafnan á vandaða og framsýna stefnu í efnahagsmálum. Við þurfum að skapa fyrirsjáanleika, stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta og tileinka okkur þá reglu að eiga fyrir því sem við eyðum. Ég fagna því sérstaklega að hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, hafi boðað að tekin verði upp stöðugleikaregla í lögum um opinber fjármál. Það er tímabært að ríkið tileinki sér það sem við tileinkum okkur almennt í heimilisbókhaldinu; að eiga fyrir því sem við eyðum, og að ekki sé aukið um of í útgjöldin þegar vel árar því að uppsveiflur vara ekki að eilífu eins og ráðherra kom inn á í sinni ræðu,“ sagði Ingvar Þóroddsson þingmaður Viðreisnar á Alþingi.

„Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru krefjandi. Á sama tíma og við erum að reyna að tryggja hér stöðugleika er ljóst að við þurfum að vinna niður hátt í 700 milljarða uppsafnaða innviðaskuld sem ríkisstjórnin fékk í heimanmund frá fyrri ríkisstjórnum.“

Ingvar var ekki hættur. Hann endaði ræðu sína svona:

Íslenskt húsnæðislán er afleiðusamningur…

„Þegar ég flutti aftur heim að loknu námi erlendis með afar þunnt veski varð ljóst að ég gæti ekki eignast mína eigin íbúð; staða sem margir á þrítugsaldri kannast við. Þar af leiðandi er ég fulltrúi þeirra hér á þingi sem enn eru með lögheimili hjá foreldrum sínum. Það eru ótrúlega mörg veðmál sem fólk er í raun að taka þegar það ákveður að setjast við íslenska rúllettuborðið. Hvernig fara næstu kjarasamningar? Ætli dollarinn sé að styrkjast? Hvernig verður loðnuvertíðin í ár? Íslenskt húsnæðislán er afleiðusamningur með ótal sjálfstæðum breytum. Afleiðingin af þessu er að ungt fólk missir trú á því að Ísland sé land framtíðar og flytur til landa þar sem efnahagsmálin eru tekin fastari tökum og meiri fyrirsjáanleiki ríkir. Marga langar að snúa heim en geta ekki hugsað sér það af því að þau vilja ekki stíga inn í spilavítið. Þessi atgervisflótti skaðar okkur öll. Það þarf að fara betur með almannafé og loka þessu spilavíti.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: