Það er leiðin út úr þessum vanda og við í Flokki fólksins horfum mjög bjartsýn á þetta kjörtímabil.
Sigurjón Þórðarson.
„Það er ekki svo og ég bendi bara þingmönnum á það sem er hér síðar á dagskránni, það er ríkisreikningur fyrir árið 2023. Þar er gríðarlegur halli, hvort hann er ekki upp á 82 milljarða. Það er ekki gott að taka við því og ekki heldur innviðum í ólestri, eins og kom fram hjá þeim sem bar upp þessa umræðu. Sama má segja um hæstu verðbólgu á byggðu bóli í Evrópu fyrir utan mögulega þau ríki sem eiga í stríði,“ sagði Sigutjón Þórðarson Flokki fólksins.
Hann var að svara fyrrverandi stjórnarliðum sem héldu því fram af alvöru að núverandi ríkisstjórn hefði sem sagt, tekið við góðu búi. Sigurjón hélt áfram:
„Við tókum ekki við góðu búi. Þess vegna þurfum við að fá hér jákvæða tóna inn í þessa umræðu og raunsæja. Við ætlum að gera betur og mér sýnist að það blasi við á þeim 82 dögum sem liðnir eru frá því að þessi ríkisstjórn tók við búinu að hlutirnir séu að snúast í rétta átt. Við erum hér að ná niður verðbólgunni. Við erum hér að ræða sparnaðartillögur sem fá yfirleitt jákvæðan hljómgrunn í samfélaginu, sem er vel. Ég segi: Það er verk að vinna og við þurfum að fara í raunsæjar lausnir, ræða um hlutina eins og þeir eru, taka okkar tíma í það að gera hér eina krónu að tveimur, ná niður sparnaði. Það er leiðin út úr þessum vanda og við í Flokki fólksins horfum mjög bjartsýn á þetta kjörtímabil. Þetta er kjörtímabil þar sem við horfumst í augu við þau verk sem er að vinna og við ætlum svo sannarlega að ná árangri.“