- Advertisement -

Þingkona Framsóknar vill hærri skatta af fjármagnstekjum

„…á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%.“

Hafdís Hrönn Hafliðadóttir.

„Við megum ekki gleyma kjaragliðnuninni sem hefur átt sér stað milli fjármagnseigenda og launafólks en á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%. Ekki er greitt tryggingargjald af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skatts á hagnað lögaðila og skatts á launagreiðslur,“ sagði Hafdís Hrönn Hafliðadóttir Framsóknarflokki á Alþingi í gær. Verið var að ræða um kjaragliðnun í landinu.

„Því er spurning hvort taka þurfi þetta til gagngerrar endurskoðunar. Mögulega þarf að girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna eða leggja í þá vinnu að endurskoða það skatthlutfall sem fjármagnseigendur þurfa að greiða af útgreiddum arði. Á sama tíma þurfum við að passa að markmiðið á alltaf að vera sanngjarnt og skilvirkt skattkerfi. Við búum jú öll í þessu landi saman og þar af leiðandi ættum við öll að bera þá samfélagslegu ábyrgð saman að greiða í samneysluna. Það ætti að vera leiðarljós okkar áfram í þessum efnum,“ sagði Hafdís Hrönn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: