- Advertisement -

Þingmenn verði á bakvakt – fá þó sitt frí

Þingmenn fá þriggja mánaða frí frá þingstörfum.

Alþingi / „Ég hef lagt það til við formenn flokka á Alþingi að Alþingi muni standa samkvæmt starfsáætlun u.þ.b. til 25. júní nk., sem er sú starfsáætlun sem er í gildi. Ég hef sömuleiðis lagt það til að næsta reglulega þing verði sett þann 1. október næstkomandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpi um þingsköp Alþingis.

Þar sem þingið starfar lungann úr júní munu þingmenn mæta til þingstarfa mánuði síðar en er að jafnaði. Þó með þeirri undantekningu að í eina viku í ágúst verða þingstörf.

„Í þriðja lagi að þingi verði frestað í lok júní, eins og áður var nefnt, og það verði sett aftur í lok ágúst til að mæla fyrir fjármálastefnu og að umræða um hana verði lokið u.þ.b. viku síðar,“ sagði Katrín.

„Þá verði engin önnur mál tekin á dagskrá nema aðstæður vegna heimsfaraldurs krefjist þess. Í raun og veru verði það þinghald eingöngu um fjármálastefnu nema eitthvað komi upp vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem kalli á að þingið taki afstöðu til þess. En sömuleiðis að þingmenn séu á bakvakt ef eitthvað óvænt kemur upp utan þess tíma sem ég hef hér nefnt. Er það ekki nema eðlilegt í ljósi þess að á þeim tímum sem við lifum er langeðlilegast að kalla þing saman ef þess þarf en ekki ráðast í setningu bráðabirgðalaga, því að ég lít svo á að allir þingmenn, a.m.k. þeir sem ég hef rætt við, séu að sjálfsögðu reiðubúnir að vera á þessari bakvakt.“

„Með frumvarpinu er eingöngu lagt til að samkomudagur reglulegs Alþingis haustið 2020 verði fimmtudagurinn 1. október í stað annars þriðjudags í september, eins og þingskapalög kveða á um,“ sagði Katrín einnig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: