- Advertisement -

Þórdís segir stöðu efnahagsmála ekki slæma bara vandasama

„Á bara að selja banka til þess að selja banka, bara af því að það væri gott upp á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?“

Björn Leví Gunnarsson.

„Staða efnahagsmála er slæm, stýrivextir í hæstu hæðum og ekki von á því að ársverðbólga komist á viðráðanlegar slóðir fyrr en í fyrsta lagi um mitt næsta ár. Ný hagspá Landsbankans býst við 5,3% verðbólgu á næsta ári og ekki er búist við að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans á næstu árum, sem ég tel reyndar bjartsýna spá en sjáum hvernig það fer,“ sagði Björn Leví Gunnarsson.

Hann sagði einnig: „Á bara að selja banka til þess að selja banka, bara af því að það væri gott upp á hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins?“

Þórdís K.R. Gylfadóttir svaraði Birni Leví. Hún er ákveðin í að halda áfram sölu Íslandsbanka.

…ég mun gera mitt allra besta…

„Við vitum að staða efnahagsmála er vandasöm en ég get ekki tekið undir það að hún sé slæm. Þessi vandamál sem blasa við okkur eru að uppistöðu til vegna þess að við erum að vaxa svo hratt.“

Ögn síðar sagði nýi fjármála- og efnahagsráðherrann: „Það sem ég get lofað er, óháð því hvernig verkefninu vindur fram, að ég mun gera mitt allra besta og vanda mig eins vel og ég mögulega get, draga þá að sem flesta sem vilja að þetta sé almennilega gert. Ég átta mig algerlega á því hvað er undir. Ég þekki söguna allt frá hruni. Ég veit að það eru enn þá sár í íslensku samfélagi en ég veit líka að það er rétt ákvörðun að selja bankann og losa um þar og nýta það til góðs fyrir almenning í landinu.“

Björn Leví var hvergi hættur:

„Hæstvirtur fjármálaráðherra segir að ábyrg fjármálastefna skipti máli en við erum komin hingað einmitt út af því að það skortir ábyrga fjármálastefnu. Við erum að glíma við þennan vanda í söluferli Íslandsbanka út af vanrækslu. Það er ekkert ábyrgt við það. Hvernig er hægt að fá betra verð fyrir banka sem er í rauninni í rannsókn vegna ákveðins misferlis? Ég myndi segja að það væri mjög erfitt að reyna að selja banka sem er í þannig stöðu. Orð hæstvirts ráðherra um að það verði í rauninni að selja bara til að menn þurfi ekki að taka lán bendir til ákveðins rekstrarvanda en ekki ábyrgrar fjármálastjórnar.

„Traust er mjög flókið fyrirbæri…“

Ég þakka ráðherra fyrir að lofa að gera sitt besta og vanda til verka en traust er þar grundvallaratriði. Það þarf að leita og afla trausts áður en farið er í frekari sölu. Það er ekki er hægt að afla trausts á meðan eða eftir á miðað við þá stöðu sem við erum komin í út af fyrra klúðri.“

Þórdís K.R. fær lokaorðið í þessari syrpu:

„Traust er mjög flókið fyrirbæri og það er hægt að vinna sér inn traust og það er hægt að tapa trausti, það er hægt að sá fræjum sem auka á vantraust og það er hægt að leita leiða til að auka það. Það sem ég get bara sagt er að ég veit að það mun þurfa mikla vinnu þar til fólk finnur fyrir því að það geti treyst því að við séum að losa ríkið undan eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum vegna þess að það er það sem er skynsamlegt að gera, auðvitað á þeirri forsendu að það sé rétt gert og að fjármunirnir séu nýttir í þágu almennings í landinu, sem ég er þeirrar skoðanir að sé ekki með því að eiga banka. Og ég er ekki ein um þá skoðun heldur er það yfirlýst markmið að það sé það sem við ætlum að klára.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: