- Advertisement -

Þorsteinn vill ólmur selja bankana

Þorsteinn: „En fyrst og síðast: Hvenær ætlum við að hefjast handa við að selja?“

Alþingi ræddi í dag um hvítbók Bjarna Benediktssonar. Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, var meðal þeirra sem töluðu. Þorsteinn getur vart beðið eftir að bankarnir verða settur í sölu.

„Það sem skín í gegn í skýrslunni er að það sé einmitt orðið löngu tímabært að stíga skref í sölu bankanna. Ríkið er búið að vera með íslenska fjármálakerfið í fanginu núna í áratug,“ sagði Þorsteinn.

„Það er í raun og veru búið að tala um það meira og minna allan þennan tíma að það sé óheppilegt eignafyrirkomulag, það dragi úr samkeppni á markaði, og það kemur skýrt fram í þessari skýrslu, og að það dragi úr samkeppni á markaði sem einkennist einmitt af ónógri samkeppni og fákeppni. Það eru í raun við, neytendur, sem borgum fyrir þennan skort á samkeppni, enda kemur líka mjög skýrt fram í skýrslunni að bankakerfið er dýrt, óhagkvæmt, og þjónar ekki grunnþörfum neytenda, heimila, sérstaklega ekki lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“

„Væri það ekki heppilegt að mati hæstvirts ráðherra að fara að hraða þessari sölu? Hvenær má vænta þess? Því að það er búið að tala um þetta æðilengi og flokkur hæstvirts ráðherra er búinn að vera í ríkisstjórn í sex ár af þeim tíu sem ríkið hefur haldið á bönkunum,“ sagði Þorsteinn.

Og hann endaði svona: „En fyrst og síðast: Hvenær ætlum við að hefjast handa við að selja?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: