- Advertisement -

„Þú skalt vera í þinni eymd, í þinni fátækt, þinni sárafátækt“

„Almannatryggingakerfið er gjörsamlega ónýtt. Þetta er bútasaumað skrímsli og þetta á ekki að eiga sér stað.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Alþingi Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, er ódeigur í baráttu sinni fyrir þau sem verst hafa lífskjörin á Íslandi. Hann mælti fyrir frumvarpi sínu um almannatryggingar. Þá sagði hann meðal annars þetta:

Svo kom þetta:

„Við skulum taka sem dæmi ef einhver einstaklingur hefur verið á leigumarkaði eða eitthvað og er kominn á þennan aldur og ákveður að fara að safna sér fyrir íbúð eða útborgun í íbúð, ef hann bara myndi áætla að reyna það, það segir þarna bara berum orðum að hann á aldrei möguleika og hann á aldrei að geta það. Þetta á líka við um öryrkja. Það er alveg með ólíkindum að við skulum leyfa okkur að koma svona fram við veikt fólk og aldrað fólk, eins og það sé ekki fyrsta flokks borgarar, ekki annars, ekki þriðja flokks heldur hundraðasta flokks, bara síðastir í röðinni, að það sé hægt að gera allt þeim til bölvunar sem hægt er. Þeir finna bara upp einhverjar ótrúlegar tölur og segja við viðkomandi: Hei, ef þú ert að reyna að leggja fyrir af þeim litlu peningum sem þú færð, reyna eitthvað að bjarga þér, þá refsum við þér.“

„Þú mátt ekki fá meira.“

„Þú skalt vera í þinni eymd, í þinni fátækt, þinni sárafátækt, og þú skalt vera þar alveg sama hvað það kostar. Við setjum á þig krónu á móti krónu skerðingar og ef það dugir ekki til þá setjum við á þig að þú mátt ekki eignast nema 4 millj. kr. og þá tökum við þig alveg í gegn. Við erum að tala um, eins og ég horfi á þetta — 100% lífeyrir, sem sagt lægsti ellilífeyririnn sem við getum fundið, 100%, er í dag hvað, þegar búið er að taka skatt af því og skerðingarnar og annað þá er það ekki 283.000 heldur 293.000. Hverjum finnst spennandi að reyna að lifa á 293.000 kr. og vita það fyrir víst að ef þú færð einhverja krónu einhvers staðar annars staðar frá, skiptir engu máli hvaðan hún kemur, þá verður þú fyrir krónu á móti krónu skerðingu? Þú mátt ekki fá meira.“

Í lok ræðu sinnar sagði Guðmundur Ingi Kristinsson:

„En því miður, það verður bara að segjast alveg eins og er að þessi ríkisstjórn sem er núna og ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa slegið hver annarri við í lágkúru við að níðast á fólki sem er í þessu almannatryggingakerfi. Við munum fyrir ekki svo löngu þegar hrunið varð að þá var tekið 10% af línunni, ellilífeyrisþegar og öryrkjar og almannatryggingaþegar fengu 10% minna. Þá var fullyrt að það yrði fyrsta verk þeirrar ríkisstjórnar þegar betur áraði að leiðrétta það en það var aldrei leiðrétt. Kjaragliðnun þessara hópa lengdist og lengdist og lengdist. Við sjáum það í þessu og öðrum frumvörpum að þetta kerfi okkar er ónýtt. Almannatryggingakerfið er gjörsamlega ónýtt. Þetta er bútasaumað skrímsli og þetta á ekki að eiga sér stað. En jú, það er á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem hafa verið við völd undanfarin ár; Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þau byggðu þetta kerfi upp. Þetta er þeirra barn. Þau hafa viðhaldið þessu kerfi. Þau næra það með svona ógeðslegum hlutum þar sem þau reyna að mismuna fólki um það bara að þau geta mismunað fólki og gera það með 10% lægri lægstu ellilífeyrisgreiðslum, krónu á móti krónu skerðingar tóku þau upp aftur, mega ekki eiga meira en fjórar milljónir, þurfa að niðurlægja sig við að sækja um félagslega aðstoð. Þetta eru skilaboð til aldraðra og þetta þarf að stöðva.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: