„Við getum ekki gert annað en að halda áfram að benda á hvað snýr upp og hvað snýr niður í þessu máli sem varðar fullveldi Íslands, varðar fullveldi Alþingis…“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Alþingi.
Alþingi„Þetta er mál sem getur haft gríðarleg áhrif til framtíðar. Fyrir því hafa verið færð rök nú þegar í þessari 1. umræðu en í framhaldi umræðunnar munum við gera grein fyrir því með hvaða hætti þessi breyting sem hér er lagt upp með getur haft áhrif á allt lagasafn Íslands, valdið óvissu um íslensk lög á öllum sviðum, alla vega á mjög mörgum sviðum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í umræðu um bókun 35.
„Nái þetta fram að ganga mun reynast afskaplega erfitt að greiða úr því öllu. En verra er þó að með þessu er verið, eins og lýst er í frumvarpinu, að gefa eftir af getu íslenskra stjórnvalda, okkar hér á Alþingi, til þess að taka okkar ákvarðanir og láta þær gilda umfram annað. Það má því gera ráð fyrir að þetta mál krefjist talsverðrar umræðu í þinginu en fram að því yfirlegu í nefnd, og það hefur verið ánægjulegt að heyra að háttvirtur formaður utanríkismálanefndar hefur tekið undir að það sé mikilvægt að þetta mál fái góða meðferð í nefndinni.
Þar mun ég og aðrir Miðflokksmenn leggja okkar af mörkum við að draga fram helstu staðreyndir þessa máls því að við höfum séð að þrátt fyrir að hér sé um að ræða líklega fjórða skiptið sem þetta mál kemur fram er enn haldið fram hinum ýmsu bábiljum sem er ítrekað búið að reyna að leiðrétta. Hvað getum við gert við því?
…hvað snýr upp og hvað snýr niður…
Við getum ekki gert annað en að halda áfram að benda á hvað snýr upp og hvað snýr niður í þessu máli sem varðar fullveldi Íslands, varðar fullveldi Alþingis og getu þess til að setja landinu lög sem taka mið af íslenskum aðstæðum og hagsmunum íslensku þjóðarinnar; að þau séu tekin fram yfir aðsenda lagabálka og reglur sem eru samdar til að þjóna einhverjum allt öðrum hagsmunum, allt annars konar samfélögum. Þau geta vissulega í mörgum tilvikum átt við hér og sum hver reynst vel til að efla samstarf þjóðanna en það er ekki alltaf svo. Það koma upp tilvik. Við höfum séð það ítrekað að leitast er við að innleiða hér regluverk eða lög sem ganga jafnvel gegn íslenskum hagsmunum. Slíkt mun gerast í framtíðinni og þess vegna þurfum við Íslendingar að verja fullveldisrétt okkar og getu til að afþakka það sem hentar ekki okkar aðstæðum og hagsmunum,“ sagði Sigmundur Davíð formaður Miðflokksins.